- Advertisement -

HIN RÍKU VILJA ENN FREKARI SKATTAAFSLÁTT

Gunnar Smári skrifar: Nú þegar hin ríku hafa hafið áróður sinn fyrir lækkun fjármagnstekjuskatts, þótt þessi skattur sé hvergi lægri í okkar heimshluta, er ágætt að gera sér grein fyrir hvað fjármagnstekjur eru. Samkvæmt upplýsingum Ríkisskattstjóra skiptust fjármagnstekjur einstaklinga svona 2017:

Leiga, íbúðir: 13,3 milljarðar króna
Leiga, önnur: 1,3 milljarðar króna
Vextir, innistæður: 16,9 milljarðar króna
Vextir, annað: 15,8 milljarðar króna
Arður: 59,3 milljarðar króna
Söluhagnaður: 46,5 milljarðar króna
Samtals: 153,1 milljarðar króna

Þar sem fjármagnstekjuskattur er miklum mun lægri en á Norðurlöndunum, þar sem hann er að meðaltali 33,7% en var 20% á Íslandi, má ætla að við höfum gefið þeim sem höfðu fjármagnstekjur rétt tæplega 21 milljarð króna í skattaafslátt í fyrra umfram það sem tíðkast í okkar heimshluta.

Ef við skiptum þessu niður eftir uppruna teknanna þá skiptist afslátturinn svona:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Leiga, íbúðir: 1.829 milljónir króna
Leiga, önnur: 178 milljónir króna
Vextir, innistæður: 2.315 milljónir króna
Vextir, annað: 2.165 milljónir króna
Arður: 8.124 milljónir króna
Söluhagnaður: 6.371 milljónir króna
Samtals: 20.975 milljónir króna

Þetta er áætlun. Það sem innan fjármagnstekjuskatts eru skattleysismörk, 100 þús. kr. fyrir einstakling, má ætla að afslátturinn sé minni varðandi vexti af bankainnistæðum, sem dreifist á margar litlar innistæður. En þetta er nógu nærri lagi til að gefa góða heildarmynd.

Þarna sést að lægri fjármagnstekjuskattur hér en á Norðurlöndunum færir fyrst og fremst hinum fáu ríku mikinn skattaafslátt. Það eru fyrst og fremst örfáar fjölskyldur sem standa á bak við söluhagnaðinn, arðinn, vexti af öðru en innistæðum og leigu á öðru húsnæði en íbúðarhúsnæði. Samanlagt er skattafslátturinn til þessa fámenna hóps 16,8 milljarðar króna árið 2017.

En talsmenn lækkunar fjármagnstekjuskatts munu ekki bera þetta fólk fyrir sig. Hin ríku munu ekki halda því fram að nauðsynlegt sé að lækka enn frekar, enn og aftur, skatta á hina ríku (sem leiða mun til skattahækkana á venjulegt launafólk, því einhver þarf að borga skattana). Þess í stað munu þau annars vegar tala um skatta af vöxtum á bankainnistæðum og hins vegar skatta af leigutekjum.

Ef fólk óttast að fjármagnstekjuskattur af vöxtum af bankainnistæðum auki skattbyrði venjulegs fólk ætti það að ræða hækkun skattleysismarka fjármagnstekna en ekki lækkun skattprósentunnar. Miðað við upplýsingar sem komu fram eftir Hrunið áttu örfáir einstaklingar um 70% af þeim bankainnistæðum sem voru tryggðar. Almenningur á því ekki nema um 5 milljarða króna af fjármagnstekjum 2017 af bankainnistæðum. Skattur af þeim var minni en 1 milljarður, þar sem skattleysismörkin virka fyrst og fremst á innistæður hinna mörgu. Ef talsmenn hinna ríku vilja lækka þennan skatt um helming með lækkun fjármagnstekjuskatts yfir línuna, þá myndi almenningur fá minna en 500 milljónir eða um 1430 kr. á mann. Skattalækkunin myndin færa hinum raunverulegu fjármagnseigendum hins vegar um 15 milljarða króna skattalækkun (ef við deilum því niður á 10% landsmanna gera það 430 þús. kr. á mann, ef við gerum ráð fyrir að 1% landsmanna eigi helminginn af því gera það 4,3 m.kr. á mann og ef við gerum ráð fyrir að 0,1% eigi 1/2 af því gerir það 10,7 m.kr. á mann og miklu meira á hin allra ríkustu).

Fjármagnstekjur af húsleigu íbúðarhúsnæðis var 13,3 milljarðar króna. Stór hluti þess eru tekjur fólks sem gerir út á að kaupa íbúðir og leiga en umtalsverður hluti er vegna leigu á kjallaraíbúð eða forstofuherbergi hjá venjulegu fólki, það er fólki sem ekki er hægt að flokka til stórtækra leigusala. Þessa tekjur eru um 9% af öllum fjármagnstekjur og rök fyrir að lækkun fjármagnstekjuskatts á húsaleigu haldi aftur af hækkun húsaleigu, geta ekki leitt til lækkunar á sköttum á hinum 91% hluta fjármagnstekna. Það væri sáraeinfalt að láta hækkun fjármagnstekjuskatts á þennan hluta, tekna af leigu íbúðarhúsnæðis, renna beint aftur til leigjenda í formi húsnæðisbóta. Þar með væri girt fyrir að leigjendur bæru byrðar af hækkun fjármagnstekjuskatts.

Næstu vikur munum við sjá uppdregnar myndir af greiðendum fjármagnstekjuskatts sem fátækum ekkjum sem leigja frá sér kjallaraherbergi eða ung börn sem geyma skírnargjafir á sparisjóðsbókum. Þið ættum ekki að láta þetta villa um fyrir ykkur. Hið rétta er að lungann úr fjármagnstekjuskattinum kemur frá hinum allra auðugustu á Íslandi, fólkinu sem kom sér undan skattgreiðslum á nýfrjálshyggjuárunum og hvolfdi auknum skattbyrði yfir á venjulegt launafólk, ekki síst fólk með lágar eða lægri millitekjur. Til að endurreisa velferðarkerfið og byggja upp jöfnuð og réttlæti í samfélaginu er frumskilyrði að skattar séu aftur innheimtir af hinum auðugu. Þeir flokkar sem vilja halda áfram á braut nýfrjálshyggjunnar og lækka skatta á hina ríku vinna í raun gegn almenningi og vilja sökkva honum í auknum sköttum, aukinni gjaldtöku innan opinberrar þjónustu og skerða og einkavæða flest svið velferðarkerfisins; brjóta niður lífskjör almennings með öðrum orðum.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: