Gunnar Smári skrifar: Ég var að skrá mig sem fulltrúa á þing Neytendasamtakanna 27. okóber. Þar verður kosið í stjórn og vonandi markar þingið breytingar hjá samtökunum, nýtt upphaf, upprisu. Margt gott fólk hefur sig fram til stjórnar. Það er fagnaðarefni. Undanfarna áratugi hefur verið sjálfkjörið í stjórnina, frambjóðendur verið jafn margir stjórnarsætunum. Það er náttúrlega afleitt. Ofan á þaulsetu formannsins. Jóhannes Gunnarsson heitinn var formaður Neytendasamtakanna í 32 ár, fjórfalt lengri tíma en telja má boðlegt. Almannasamtök ættu að setja sér átta ára hámarkssetu formanna sinna. Of mörg almannasamtök, ekki síst verkalýðsfélög, hafa koðnað niður í klíkuskap og skrifstofuræði og drepið niður virkni almenns félagsfólks; breytt almannafélögum í einskonar stofnanir eða jafnvel einkafyrirtæki forystunnar. Upprisa almannasamtaka og endurfædd trú á tilgang félagslegrar þátttöku þarf að verða leiðarstef í endurreisn lýðræðisins, enda forsenda þess að almenningur geti mótað samfélagið að eigin hagsmunum. Við byggjum ekki upp virkt lýðræði með kosningum til þings og sveitastjórna á fjögurra ára fresti.
Ef við leyfum almannasamstökum, helstu baráttutækjum almennings, sem byggðu upp flest af því góða í samfélaginu, að koðna niður munu hin ríku og valdamiklu valta yfir hagsmuni almennings. Sagan sýnir að það er ekki nokkur fyrirstaða í kjörnum fulltrúum. Þing og sveitastjórnir eru batterí sem endurspegla völdin í samfélaginu. Ef almenningur hefur lagt niður sína baráttu eykur þing og sveitastjórnir enn völd og áhrif peningavaldsins. Án virks lýðræðis og þátttöku almennings er engin fyrirstaða gegn valdi peninganna, eina sem getur heft peningavaldið er samstaða almennings. Kjörnir fulltrúar á eigin vegum og án tengingar við samtök almennings, stjórnmálafólk sem ekki lítur ætíð á sig sem framlengingu af skipulögðum samtökum almennings; slíkt stjórnmálafólk er engin fyrirstaða fyrir peningavaldið. Við sjáum sönnun þess í sögunni og verðum vitni af því alla daga. Stjórnmálafólk verður að þjóna einhverjum. Ef það veit ekki hverjum það á að þjóna mun það þjóna valdinu sem fyrir er, peningavaldinu, og engu breyta. Öflug almannasamtök eru forsenda virks lýðræðis. Án þeirra verða stjórnmálin vettvangur klíku- og foringjaræðis, sem í reynd þjónar fyrst og síðast ríkjandi vandastéttum.
En þetta vita svo sem allir. Og við sem vitum þetta verðum að gera eitthvað. Eins og til dæmis að ganga í Neytendasamtökin og kjósa fólk þar í stjórn á þinginu 27. október sem vill vekja samtökin, tengja þau við endurreisn verkalýðshreyfingarinnar, upprisu leigjenda í Samtökum leigjenda og annarri vakningu innan almannasamstaka og hagsmunabaráttu almennings. Hin ríku og völdugu eru stjórnlausar skepnur, vaða yfir almenning og níðast á honum, okra og brjóta á honum rétt, alveg þangað til að almenningur rísa upp og snýst til varnar. Fyrirtæki borga starfsfólki sínu eins lág laun og þau komast upp með, verðleggja vöru og þjónustu eins hátt og þau komast upp með, rukka leigjendur um eins háa leigu og þau komast upp með o.s.frv. Hin ríku vaða áfram þangað til þau eru stoppuð. Og það eina sem getur stöðvað þau er samstaða og samtakamáttur almennings. Ekki enn nýjir foringjar sem segjast geta unnið verkið fyrir almenning. Varið ykkur á slíku fólki. Það er aðeins almenningur sem getur tekið til sín völdin. Með því að ganga í almannasamtök og taka virkan þátt í að byggja þau upp og efla. Gakktu í Neytendasamtökin núna og skráðu þig til þátttöku á þingi Neytendasamtakanna. Ef ekki, ertu að færa hinum ríku öll völd í samfélaginu. Það er bara þannig.