Staksteinar Moggans í dag fjalla um sérstakt mál sem farið hefur framhjá mörgum. En stórt mál. Gefum yfir í Hádegismóa:
„Svo ótrúlegt sem það er þá beita opinberar stofnanir eða opinber fyrirtæki því stundum fyrir sig að eigendurnir, almenningur, megi ekki fá upplýsingar um starfsemina af því að stofnunin sé með „skráð skuldabréf“. Ríkisútvarpið hefur meira að segja beitt þessari aðferð við að halda leynd yfir starfseminni og má segja að þá sé fokið í flest skjól.
Nýjasta dæmið um leynimakk í skjóli skráðra skuldabréfa er dótturfyrirtæki Orkuveitunnar, Ljósleiðarinn. Það opinbera fyrirtæki áformar að kaupa eignir af einkafyrirtækinu Sýn en á í miklum erfiðleikum með að fjármagna kaupin, hvað þá að rökstyðja þau.
Nú hefur Orkuveitan gripið til þess óyndisúrræðis að fá stóran lánveitanda til að aflétta skilyrðum um skuldsetningu dótturfélaga til að auðvelda Ljósleiðaranum kaupin og hefur fengið samþykki borgarráðs.
Allt er þetta í meira lagi vafasamt af ýmsum ástæðum. Þarna er opinbert fyrirtæki að auka umsvif sín á markaði og um leið er verið að ákveða að auka skuldsetningu borgarinnar sem þegar er skuldum vafin.
Hvernig má vera að þetta gerist án þess að nokkuð heyrist frá borgarfulltrúum? Enginn býst við neinu af fulltrúum meirihlutans í þessum efnum, en hvað veldur því að fulltrúar minnihlutans þegja?“
Enn og aftur er slegið í átt að leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í borginni. Ef rétt er munað er eiginmaður hennar stjórnarformaður Sýnar.