Dóttir Hildar Gunnarsdóttur, íbúar í Laugarneshverfi, var áreitt nýlega af manni sem beraði kynfæri sín fyrir framan hana og vinkonur hennar. Stúlkurnar voru á fimleikaæfingu hjá Ármanni og voru að hlaupa hringi í kringum gervigrasvöll Þróttar í Laugardalnum. Stúlkurnar eru á aldrinum 11-13 ára.
Líkt og Miðjan greindi frá í gær eru íbúar í Langholts- og laugarneshverfum uggandi yfir hinum svokallaða „Flassara“ sem hefur verið að bera kynfæri sín fyrir börnum og áreita þau síðustu mánuði. Þeir skilja ekkert í því hvers vegna ekkert sé gert í málinu.
„Flassarinn“ er til umræðu í hverfishópum íbúa beggja hverfanna á Facebook og er þar talað um að viðkomandi haldi einna helst til nærri íþróttasvæði Þróttar í Laugardalnum. Í samtali við DV lýsir Hildur málsatvikum þannig:
„Þær voru á útiæfingu, það var svo gott veður þess vegna voru þær úti, þær voru að hlapa hringinn um fótboltavöllinn. Hann var búinn að vera eitthvað að biðja þær um að koma, Þegar þær voru á öðrum hringi þá tekur hann út typpið og hún sá það, ég get ekki talað fyrir hinar stelpurnar. Þær hlaupa í kjölfarið inn og það er hringt á lögregluna. Lögreglan kemur en sér ekki manninn þarna þannig þær ætluðu bara að fara en þá segir dóttir mín við lögregluna að maðurinn hafi tekið út kynfærin og sýnt þeim. Þá brugðust þeir við og létu mig vita og tilkynntu það til Barnaverndar.“
Sjá einnig: „Flassarinn“ aftur kominn á kreik í Laugardalnum: „Bíddu … er þetta bara þekktur gaur?!“
„Ég hélt að hann ætti að vera í fangelsi, hann rauf skilorð en er ennþá bara laus,“ segir Hildur því viðkomandi hafi hlotið dóm í mars síðastliðnum. Var maðurinn dæmdur fyrir að bera kynfæri sín í viðurvist fjögurra 12 ára barna.
„Þetta er galið, það er eins og lögreglan sé bara gjörsamlega máttlaus í þessu máli, Ég er ekki alveg að ná þessu, ég skil ekki alveg hvað á að gera í þessu. Ég er búin að tala við fullt af foreldrum og það eru allir bara skíthræddir og vilja ekki að börnin sín séu að fara á æfingarnar vegna þess að þetta getur gerst,“ segir hin óttaslegna móðir.