Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri, segist hafa upplifað ansi súra stemningu í bænum á síðasta kjörtímabili. Öskur, baktal, niðurlæging og ósannindi er eitthvað sem hún hafi ítrekað þurft að þola, bæði í bæjarstjórn og frá bæjarbúum.
Þetta upplifði Hilda Jana sérstaklega eftir að minni- og meirihlutinn voru lagðir niður í september árið 2020. Hún er svekkt en spennt að vera í minnihluta á næsta kjörtímabili.
Í færslu sem Hilda birti á Facebook-síðu sinni segist hún hafa átt bæði góð og slæm samskipti við samfélagið á Akureyri í heild sinni:
„Það hefur verið mun erfiðara en ég átti von á upplifa öskur, baktal, niðurlægingu og ósannindi. Ég skal alveg viðurkenna að stundum hef ég bognað, en ég hef þó aldrei nokkru sinni brotnað. Ég hef líka upplifað mikið þakklæti, hrós og ómetanlegan stuðning sem hvetur mig svo sannarlega áfram. Spegilmyndin mín er mjög stolt af mér, ég er sterkari og staðfastari en nokkru sinni áður, ég veit hvað ég hef gert og fyrir hvað ég stend,“ segir Hilda Jana.