Hið óttaslegna stórveldi
Við hötum ekki Ameríku, við hötum forsetann. - Á meðan andrúmsloft óttans umlykur bandarísk stjórnmál skapa þau svipað andrúmsloft utan heimsálfunnar.
Fáir, ef nokkrir, eru eins til umfjöllunnar og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Þegar flett er í tíu ára gömlu efni úr Mannlífi, er að finna fréttaskýringu um stöðu Bandaríkjanna í forsetatíð Georgs W. Bush. Þar minnir margt á daginn í dag.
Þetta er ekki bara Bush að kenna. Bandaríkin óttast hinn nýja heim og það er ekkert sérlega góð aðferð til að stjórna heimsveldi.
Undanfarin ár hefur heimsbyggðin orðið afhuga Bandaríkjunum. Fjölmargar kannanir sýna það að Bandaríkin eru á berangri. En um eitt eru Bandaríkin og restin af heimsbyggðinni sammála; meirihlutinn á von á stórstígum framförum eftir forsetatíð George W. Bush. Hvort sem talað er um Evrópu eða Asíu er niðurstaða stjórnmálamanna, viðskiptajöfra og fræðimanna sú sama. „Við hötum ekki Ameríku“ lét einn hafa eftir sér nýlega. „Við hötum Bush. Þegar hann fer hefst nýr dagur.“
En verður það reyndin? Spurningin verður borin fram að ári, þegar nýr forseti tekur við völdum í Hvíta húsinu.
Það er enginn efi að stefna bandarískra stjórnvalda í utanríkismálum undanfarin sjö ár hefur vakið gríðarlega andstöðu meðal þjóða heimsins. Það sem minna er rætt er að stefnan er alfarið afsprengi Bush-stjórnarinnar. Einstaka viðbrögð ríkja heims skrifast á langvarandi óþol gagnvart bandarískum yfirráðum. Sem dæmi, lýsti franski utanríkisráðherrann yfirburðastöðu Bandaríkjanna á tímum Bill Clintons, ekki George W. Bush.
Verða að ná sjálfstraustinu
Svo rann 11. september upp. Upp frá því hefur Bandaríkjunum fundist sér ógnað og talið sig vera skotmark og því var brugðist við með fullu hervaldi. En á meðan Bandaríkin hafa túlkað þetta sem varnarviðbrögð, horfir heimurinn á stærsta og voldugasta ríki heims hegða sér eins og tryllt dýr í búri, sem með þvingunum beitir ofurvaldi sínu af fullum krafti.
Og í þessari hegðun býr óttinn. Bandaríkjamenn eru farnir að óttast þann nýja heim sem nú rís allt í kring um þá. Á meðan andrúmsloft óttans umlykur bandarísk stjórnmál skapa þau svipað andrúmsloft utan heimsálfunnar. Því er það hið raunverulega verkefni í Washington að reyna að koma í veg fyrir slíkar hugsanir.
Þrátt fyrir þetta er hið gagnstæða að gerast. Repúblikanar falla hver á eftir öðrum í þá gryfju að mála mynd af hinni skæðu ógn sem krefst sterkra og jafnvel grófra aðferða til að verja bandarískan almenning. Demókratar hins vegar, sem ekki hafa gerst eins sekir um að ala á óttanum, skortir kjark til að mæta þessari móðursýki í Repúblikanaflokknum.
Til að ná aftur styrk sínum, verða Bandaríkin að ná aftur sjálfstraustinu.
Veltum fyrst fyrir okkur leiðtogaefnum Repúblikanaflokksins. Á þessari leið má meðal annars nefna Rudolph Giuliani, sem endurtekur í sífellu möntruna: „Við erum að horfa á óvini um allan heim sem skipuleggja það eitt að koma hingað og drepa okkur.“ Mitt Romney útskýrir að á meðan „sumir telji rétt að loka Guantanamo, telji hann þörf á að tvöfalda stærð þess“. John McCain hljómar göfugur um leið og hann talar um að kasta sprengjum á Íran – þrátt fyrir þá staðreynd að færi svo yrði það þriðja stríð Bandaríkjanna gegn ríki múslíma á sjö árum.
Sú hugmynd að Bandaríkin séu í dag í bráðri hættu vegna afskiptaleysis og skorts á varnarviðbrögðum er í meira lagi stórfurðuleg. Frá árinu 2001 hafa Bandaríkjamenn ásamt öðrum ráðist inn í tvö lönd og dreift herliði víðs vegar um heim, allt frá Sómalíu til Filippseyja, til að berjast við hersveitir múslíma. Kostnaðurinn við þennan varnarleik nemur 187 milljörðum dala, sem er meira en samanlagður herkostnaður Kína, Rússlands, Indlands og Bretlands. Þessi varnarviðbrögð hafa einnig alið af sér bandaríska varnarmálaráðuneytið sem kostar þjóðina meira en 40 milljarða dala á ári. Því hlýtur að vera spurt með hvaða hætti Guiliani hyggst auka sóknina? Á kannski að ráðast inn í fleiri lönd?
Að ná fyrri styrk
Til að ná aftur fyrri styrk sínum í heiminum, verða Bandaríkin fyrst að ná því sjálfstrausti sem þau höfðu. Þau eru hið eina raunverulega heimsveldi, eina stórveldið með full yfirráð hervalds, efnahags og stjórnmála. Flest stórveldi heimsins hafa annaðhvort jákvæða eða hlutlausa afstöðu gagnvart Bandaríkjunum. Sú ögrun sem Bandaríkin standa frammi fyrir kemur eingöngu frá höfuðlausum hryðjuverkasamtökum og fáum herskáum ríkjum. Þetta minnkar samt sem áður ekki ögrunina. Staðan í dag er slík að litlir hópar geta valdið miklum skaða. En það er til að setja hlutina í samhengi sem þetta er sett fram. Þegar Bush forseti talar um kjarnorkuáætlun Írana sem vísbendingu um heimstyrjöldina þriðju, hlýtur maður að velta fyrir sér hvort hann geri sér grein fyrir að kjarnorkuyfirráð Írana eru eingöngu 1/6 til 1/8 af því sem Bandaríkin ráða yfir, og að herkostnaður Írana er um eitt prósent af kostnaði Bandaríkjanna af hernaði.
Hin raunverulega áskorun við Bandaríkin kemur ekki frá þeim sem hafa setið eftir í kapphlaupi alþjóðavæðingar heldur einmitt frá þeim sem hvað hraðast hafa hlaupið. Ekki frá sprengjum gærdagsins heldur fyrirtækjum morgundagsins. Stærsta verkefnið sem verðandi forseti Bandaríkjanna stendur frammi fyrir verður að snúa af þeirri braut sem utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur verið undanfarin ár. Áherslan verður að hverfa frá Mið-Austurlöndum og færast austur á bóginn. Þegar sögubækur þessa tíma verða ritaðar, mun meirihluti verksins fjalla um ris Kína og Indlands og hvernig þessi ríki hafa endurskapað heiminn, og minna púðri verður varið í umfjöllun um stríðið í Líbanon eða spennuna vegna Írans.
Of upptekin við málamiðlun
Þessi valdaskipti hafa víðtæk en jákvæð áhrif á gjörvalla heimsbyggðina; alþjóðavæðingin er kraftaverk sem vert er að gefa gaum. En hún skapar einnig ný vandamál og veldur ruglingi. Dæmi um það er aukin krafa á hráefni og orku. Ríki sem framleiða slíkar afurðir eins og Íran, Rússland, Venesúela, Sádi-Arabía hafa orðið valdamiklar blokkir sem undanskildar eru reglum markaða og viðskipta og gefa þjóðum heims í leiðinni langt nef. Þeirra kapitalismi ryður hinum eldri á brott og upp rís ný stefna, nokkurs konar anti-kapitalismi. Umhverfismál skipa æ stærri sess um gjörvalla heimsbyggðina. Og þessi mál fá liðsstyrk í breytingum á loftslagi, úrkomu og íbúatölum. Skortur á vatni, hveiti og öðru mjöli gæti orðið mun áhrifameira en áður hefur verið þegar kemur að því að fólk velji sér öruggt og gjöfult landsvæði til búsetu.
Það er engin leið að afstýra hinni undirliggjandi stækkun heimsbyggðarinnar, né heldur er ástæða til. Í hvert sinn sem efnahagur heimsbyggðarinnar hefur vaxið líkt og nú sést hefur það leitt til víðtækari fátæktar um allan heim. En þetta er gríðarmikil þróun sem kallar á fulla athygli. Á meðan ríki heimsins, allt frá Kína til Chile, eru með til að vinna, hafa bandarísk stjórnvöld varla gefið þessari þróun og þeim tækifærum sem skapast hafa, nokkurn gaum. Bush-stjórnin virðist vera of upptekin við að miðla málum milli súnnía og shíta í miðborg Bagdad.
Sá heimur sem nú hefur opnast okkur þarfnast nýrra meðala við vandamálum sínum. Of margir nýir leikmenn eru til staðar til að gömlu reglurnar virki. Asía breiðir úr sér, en ekki bara Asía. Efnahagslegur styrkur og stjórnmálalegt öryggi vex í Suður-Ameríku og jafnvel í Afríku. Leiðtogar utan stjórnmálanna skipta nú æ meira máli og hafa sífellt sterkari völd í alþjóðasamfélaginu.