- Advertisement -

Hið opinbera flækist fyrir sjálfu sér

„Allir virðast benda hver á annan sem sökudólg í málinu og á meðan gerist nákvæmlega ekki neitt.“

Hilda Jana Gísladóttir.

Alþingi „Það getur verið dapurlegt að sjá hið opinbera flækjast fyrir sjálfu sér. Ég vil taka dæmi úr mínum heimabæ, Akureyri, en þar bíða, samkvæmt mínum upplýsingum, 79 einstaklingar eftir því að komast á hjúkrunarheimili. Þau bíða heima eða bíða á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Á Akureyri átti að rísa hjúkrunarheimili og það átti að vera klárt fyrir árslok 2023. Ekkert bólar á nýju hjúkrunarheimili og í stað þess að hjúkrunarrýmum hafi fjölgað um 80 þá fækkar þeim tímabundið um 30. Af hverju? Jú, ríkið og Akureyrarbær ná ekki saman,“ sagði Hilda Jana Gísladóttir sem nú situr á Alþingi í fjarveru Loga Einarssonar.

„Afleiðingin: Margra mánaða tafir á mikilvægum endurbótum við húsnæði hjúkrunarheimilisins Hlíðar og fleiri rými en áður var talið nauðsynlegt tekin tímabundið úr notkun. Svona í alvöru talað! Það liggur ekki fyrir samkomulag um framtíðareignarhald á Hlíð eða nýtingu á húsnæði sveitarfélagsins fyrir öldrunarþjónustu. Þar sem slíkt samkomulag liggur ekki fyrir þá hefur Akureyrarbær upp á síðkastið hafnað því að greiða reikninga vegna endurbótanna.“

„Allir virðast benda hver á annan sem sökudólg í málinu og á meðan gerist nákvæmlega ekki neitt. Mér skilst að í dag muni fjármálaráðuneyti funda með Akureyrarbæ vegna málsins og þess vegna vildi ég nýta tíma minn hér í ræðustól þingsins í dag til að hvetja af öllu hjarta, í fyllstu einlægni fólk sem mætir til þess fundar og aðra sem að málum koma til að gleyma því ekki á hverjum þessar deilur bitna. Þær bitna á öldruðum og aðstandendum þeirra. Klárum þessar endurbætur, byggjum nýtt hjúkrunarheimili á Akureyri án tafar. Aldraðir og aðstandendur þeirra eiga það hreinlega skilið,“ sagði Hilda Jana Gísladóttir.

.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: