Óli Björn Kárason skrifar fínustu grein um stöðu fjölmiðla, grein sem er að finna í Mogganum í dag. Hann varar við að frjálsir fjölmiðlar verði settir á ríkisjötuna. Það drepi frelsi þeirra.
„Fátt er hættulegra fyrir frjálsa fjölmiðlun en að vera háð opinberum styrkjum og nefndum á vegum hins opinbera sem skammta úr hnefa fjármuni til að standa undir einstökum þáttum í rekstrinum. Fjölmiðlun sem er háð hinu opinbera með beinum hætti verður aldrei frjáls nema í orði,“ skrifar hann.
Þar með segir þingmaðurinn að þetta gildi um Ríkisútvarpið. Stjórnmálamenn hafa beinlínis, og það opinberlega, minnti stjórnendur Ríkisútvarpsins á hvaðan það fær meginhluta sinna tekna, með samþykktum Alþingis.
„Ég hef ekki lagt það í vana minn að nota stóryrði en nauðsyn brýtur regluna. Það er galin hugmynd að reyna að stuðla að frjálsri og óháðri fjölmiðlun með umfangsmiklum millifærslum og ríkisstyrkjum. Verst er að með millifærslum og styrkjum er í raun verið að réttlæta ranglætið á fjölmiðlamarkaði og komast þannig hjá því að fjarlæga meinið sjálft,“ skrifar Óli Björn.
Þetta er áfellisdómur Óla Björns yfir Ríkisútvarpinu. Með réttu eða röngu, en orð hans eru það samt.
Hér er ein tilvitnun til í grein Óla Björns:
„Í gegnum árin hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðum á Alþingi um stöðu fjölmiðla og ekki síst umræðum um fjárlög og Ríkisútvarpið. Af og til er lýst yfir áhyggjum af stöðu frjálsra fjölmiðla, en þær áhyggjur hafa aldrei rofið skarð í varnarmúrinn sem byggður hefur verið um ríkisrekstur fjölmiðla. Fáar ef nokkrar stofnanir eru kærari í hugum meirihluta þingmanna en Ríkisútvarpið.“