Héraðsdómur hafnar valdníðslu sýslumanns
Bjarni verður í skjóli í eitt ár enn. Frelsi fjölmiðla er fórnað til þöggunnar.
Héraðsdómur hefur hafnað valdníðslu sýslumannsins í Reykjavík, Þórólfs Halldórssonar, gegn Stundinni. Öruggt er að málinu er samt ekki lokið. Glitnir HoldCo mun eflaust áfrýja dóminum til Hæstaréttar. Því mun verða allt að árs bið með að Stundin geti birt nauðsynlegar fréttir af fjármálavafstri núverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar.
Augljóst er að lögbannið og málareksturinn er til varnar Bjarna. Því er rétt að gera ráð fyrir áfrýjuninni.
Frelsi fjölmiðla er fórnað til að fela viðkvæmar upplýsingar um mesta valdamann Íslands. Fáum dylst vald Bjarna yfir öðrum stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum. Hvað sem er að finna í gögnunum sem Stundin hefur yfir að ráða er tryggt að Bjarni verði í skjóli í eitt ár enn.
Þá fyrst kemur í ljós hverslags gögn Stundin hefur og hvaða áhrif þau kunna að hafa völd Bjarna. Þessi staða er afleidd. Það er óviðunandi að hægt sé með löglegu ofbeldi að stöðva brýn fréttaskrif.
-sme