- Advertisement -

Hér ríkir glæpsamlegt neyðarástand

Á Íslandi er rekin lang versta efnahagsstjórn í heimi og er ég þá að líta til viðurkenndra lýðræðisríkja sem geta með stolti kallað sig lýðræðis og réttarríki.

Inga Sæland.

Inga Sæland skrifaði:

Stjórnmál Þá hafa „snillingarnir“ á Svörtuloftum haldið upp á eins árs afmæli okur-stýrivaxtanna. Oft hefur gengið gjörsamlega fram af mér vanhæfnin sem ríður þar röftum en aldrei eins og nú.

Athafnir þessara einstaklinga í skjóli einræðisvalds Seðlabankans eru að ganga að samfélaginu dauðu. Skuldsett heimili og fyrirtæki riða til falls. Í stað þess að líta til landanna sem hafa náð aðdáunarverðum árangri í baráttunni við verðbólguna, þá hefur seðlabankastjóri lagt undir sig hausinn og keyrt af öllu afli á vandann án þess að taka raunverulega á honum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

9,25% stýrivextir í 6% verðbólgu er ekki einungis galið heldur forheimskt.

Ríkisstjórnin hefur fleygt inn handklæðinu fyrir löngu, þ.e.a.s ef hún hefur nokkru sinni haft nokkurt vald á því. Einfeldni og ákvarðanatökufælni hefur einkennt allt þeirra aðgerðarleysi.

Á Íslandi er rekin lang versta efnahagsstjórn í heimi og er ég þá að líta til viðurkenndra lýðræðisríkja sem geta með stolti kallað sig lýðræðis og réttarríki. Það verður seint sagt um landið okkar eins og því hefur verið fyrir komið. Heldur er rekin hér hagstjórn á pari við vanþróuð ríki og stríðshrjáð.

9,25% stýrivextir í 6% verðbólgu er ekki einungis galið heldur forheimskt. Þessi ömurlega aðför að samfélaginu sýnir svo ekki verður á móti mælt, þann hug og þá ábyrgð sem þessir aðilar bera til samfélagsins. Við sjáum það öll að vísvitandi er verið að færa bönkunum heimili og fyrirtæki landsmanna á silfurfati. AFTUR !

Það hefur marg komið fram að stór þáttur í þessu ófremdarástandi er hinn svo kallaði húsnæðisliður. Með því að afnema hann úr neysluvísitölunni myndi verðbólgan hjaðna um fl. % á einni nóttu. Það er með öllu óútskýranlegt hvers vegna þessi stærsta breyta í viðhaldi á verðbólgu sem húsnæðisliðurinn er, hefur ekki verið fjarlægð.

Ég hef f.h Flokks fólksins ítrekað lagt fram frumvörp á Alþingi um að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni. Það er ljóst að ég hef hrópað upp í vindinn, verið sem eyland í baráttunni gegn þeim hörmungum sem sturtað hefur verið yfir samfélagið eina ferðina enn.

Neyðarástandi ber að mæta með neyðaraðgerðum/neyðarlögum.

Enginn ætti að vera búinn að gleyma afrekum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í efnahagshruninu 2008 frekar en nokkur má gleyma þeim úrlausnum sem Samfylking og VG komu með í kjölfarið.

Þúsundir og aftur þúsundir misstu heimili sín, fyrirtækin fóru umvörpum í þrot. Hagstjórnin á þeim tíma var hagsmunagæsla fyrir auðvaldið á kostnað almennings. Nú er sagan að endurtaka sig í boði Bjarna Benediktssonar og ríkistjórnar hans. Kemur að vísu ekki á óvart.

Nú undir forystu og með samþykki Sjálfstæðisflokksins eiga sér stað einhverjir mestu fjármagnsflutningar til bankanna frá almenningi og skuldsettum fyrirtækjum sem um getur. Skuldsett heimili eru þvinguð á höggstokk verðtryggingar.

Það ríkir glæpsamlegt neyðarástand í samfélginu í dag, ástand sem að stórum hluta er mannanna verk.

Neyðarástandi ber að mæta með neyðaraðgerðum/neyðarlögum. Ég hef ítrekað óskað efitr því opinberlega, að Alþingi yrði kallað saman og að ríkisstjórnin axlaði ábyrgð á eigin skít. En nei það er svo gott að stinga hausnum í sólarsandinn og láta sig dreyma um að vandinn gufi bara upp.

Komið ykkur að verki forsætisráðherra eða stígið til hliðar svo að þeir sem verkinu valda, geti unnið af heilindum fyrir samfélgið okkar.

Til þess vorum við jú kjörin á Alþingi Íslendinga.

ÉG ÞORI !


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: