- Advertisement -

Hér ræður ríkisstjórn kvótaþeganna

„Þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum voru veiðileyfagjöldin 11,2 milljarðar. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram fyrir einungis tveimur mánuðum stendur það í 7 milljörðum. Nú liggur fyrir að þau eiga að lækka niður í 5 milljarða króna.“

Þetta sagði Ágúst Ólafur Ágústsson á þingi í gær. „Þetta er það sem ég er að tala um. Þetta er fyrirséð þróun. Þegar lögunum var breytt árið 2018 benti Samfylkingin ásamt Alþýðusambandinu og fleiri aðilum á að það myndi þýða lækkun veiðileyfagjalda. Þegar kemur að kostnaðinum vísa ég bara beint í frumvarp sjávarútvegsráðherra sem tiltekur í frumvarpi sínu um veiðileyfagjöld hvað felist í þeim kostnaði sem skattgreiðendur verða fyrir vegna greinarinnar. Það er 5,1 milljarður. Það er sem sagt hærra en þið treystið ykkur til að innheimta í veiðileyfagjöld á næsta ári og það finnst mér mjög sérkennilegt,“ sagði hann og bætti svo við:

„Tilgangur veiðileyfagjalds er tvenns konar, að mæta kostnaði, sem það gerir ekki lengur, og veita þjóðinni beina og sýnilega hlutdeild í afkomu veiðanna. Þetta stendur beinlínis í greinargerð hæstvirts sjávarútvegsráðherra. Það getur ekki verið skýrara, herra forseti.“

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, hefur það hlutverk í þinginu að verja „góðsemi“ ríkisstjórnarinnar við kvótaþegana. Hann sagði:

Ný lög skila 5 milljörðum.

„Lykilatriðið er að við erum með sjálfbæran sjávarútveg. Við erum með sjávarútveg sem skilar tekjum til þjóðarbúsins. Það er lykilatriði. Háttvirtur þingmaður vísar til þess að í aðdraganda þess að við breyttum lögunum hafi Samfylkingin bent á að tekjur af gjaldinu myndu lækka. Hið þveröfuga er að gerast og þar munar alveg 2 milljörðum. Gjaldið hefði verið 2 milljarðar, það munar 3 milljörðum. Ef við hefðum fylgt gömlu lögunum hefði gjaldið verið 2 milljarðar í staðinn fyrir 5 milljarða. Gamla kerfið óbreytt hefði skilað 2 milljörðum. Ný lög skila 5 milljörðum. Þess vegna settum við ný lög.“

Enn og aftur endurspeglar umræðan á Alþingi tilgangsleysið. Vissulega voru fleiri leikir mögulegir en hér er gripið til ódýrra leiða til að forðast meginmálið. Allt of lág veiðigjöld. Nýjustu fréttir sýna svo glöggt hversu miklum auði útgerðin hefur safnað með veiðum úr auðlind þjóðarinnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: