Guð hjálpi okkur ef þetta eru fyrirmyndir fyrir fólk sem stefnir hátt í atvinnulífinu.
Katrín Baldursdóttir skrifar:
Almannatengslafyrirtækið Góð samskipti er í engum tengslum við það sem skiptir máli þegar það birti nú lista yfir 40 efnilegustu stjórnendur landsins undir 40 ára aldri. Að þessu fólki ólöstuðu, þá er hér um að ræða fólk gamalla gilda þó ungt sé. Hér eru það peningar og aftur peningar, greinilegar hagvaxtaráherslur, gróðasjónarmið og kapítalismi í sinni ýktustu mynd þar sem hamfarahlýnun finnst ekki í orðabókinni og ekki heldur ójöfnuður, fátækt eða rasismi.
„Hugmyndin með listanum er að beina sjónum að ungu fólki sem er að ná eftirtektarverðum árangri á sviði stjórnunar og sem hefur fengið skjótan frama og góð tækifæri á sínu sviði. Á honum eru einstaklingar sem geta hugsanlega reynst fyrirmyndir fyrir ungt fólk sem stefnir hátt í atvinnulífinu en einnig hjálpar útgáfa hans okkur að fylgjast með öflugu fólki sem gæti komið við sögu hjá ráðningardeild Góðra samskipta,“ segir Andrés Jónsson eigandi Góðra samskipta, sem hann kallar reyndar ráðgjafafyrirtæki.
Guð hjálpi okkur ef þetta eru fyrirmyndir fyrir fólk sem stefnir hátt í atvinnulífinu. Þá getum við gleymt draumnum um breytingar sem verður að gera svo við getum þrifist í sátt og samlyndi við náttúruna. En það eru einmitt framleiðsluaðferðir nútíma kapítalisma, endalaus krafa um gróða og aukinn hagvöxt sem er að ganga af náttúrunni dauðir og hafa valdið þeim hamförum sem orðið hafa í umhverfi manns og náttúru. Sameinuðu þjóðarinnar hafa nú í þessum mánuði bent á að faraldrar eins og COVID-19 tengist beint efnahagskipulagi samtímans.
Ef þessi listi endurspeglar þær áherslur sem verða í atvinnulífinu á Íslandi í framtíðinni, þá er það mjög alvarlegt mál.