Alþingi „Hér eru ríkisbankasinnar sem vilja að ríkið eigi þessi fyrirtæki eins og mörg önnur og síðan eru hinir sem vilja í grundvallaratriðum að ríkið losi sig undan eignarhaldinu en vilja tryggja að farið sé varlega og vel með þær eignir sem er verið að setja í sölu. Ég ætla að stilla mér upp í þeim hópi,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í gær, undir dagskrárliðnum störf þingsins, en þá var nýlokið sérstakri umræðu um fyrirhugaða bankasölu.
„Ég tek eftir því að hér virðist ætla að halda áfram umræða sem er nýlokið. Menn vísa til þess að eitthvað sé óskýrt varðandi framtíðaráform ríkisins um eignarhluti og það kalli á frekari umræðu. Ég ætla bara að segja um það og hefði kannski betur komið fram í umræðunni áðan: Það þarf að uppfæra eigendastefnu ríkisins. Það er alveg hárrétt. Það verður gert og þar verður kveðið á um hvernig þessi ríkisstjórn sér fyrir sér að eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum verði til framtíðar. Ég tel að það sé hárrétt hjá Bankasýslunni að það skipti mjög miklu fyrir áhuga nýrra aðila að hafa skýrar línur um það hvað ríkið hyggst fyrir í náinni framtíð með eignarhluti sína og það mun þá eiga við bæði um Íslandsbanka og Landsbankann,“ sagði ráðherrann.