- Advertisement -

„Hér er um líf eða dauða að tefla

„…heldur er fólk í Afganistan, í Venesúela, í Sýrlandi eru yfir 40 manns, ef ég man rétt, með sambærilega stöðu.“

Bjarni Benediktsson.

Alþingi „Ég las á heimasíðu utanríkisráðuneytisins í fyrradag held ég frásögn af því að fulltrúar utanríkisráðuneytisins hefðu verið í Egyptalandi að aðstoða við fjölskyldusameiningu þess fólks, aðallega barna og kvenna, sem fengið hefur dvalarleyfi á Íslandi vegna reglna um fjölskyldusameiningu. Mig langar til að spyrja ráðherrann um árangurinn af því samtali, hvernig það gangi, og hvort við megum eiga von á því að þessir hinir sömu fulltrúar komi heim með fólk frá Gaza, að við náum að bjarga þeim mannslífum sem við höfum þó a.m.k. tækifæri til að bjarga í þessu hræðilega stríði sem nú geisar á Gaza. Ég þarf ekki að taka það fram, forseti, að hér er um líf eða dauða að tefla. Við erum í raun í kapphlaupi við tímann. Það eru 30.000 manns fallin, við þekkjum öll tölurnar, og það verður að nást árangur. Það verður að nást árangur,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á Alþingi í morgun.

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra svaraði Þórhildi Sunnu:

„Ef við veltum því fyrir okkur að hér er um að ræða hóp sem á grundvelli fjölskyldusameiningar hefur fengið dvalarleyfi á Íslandi þá er þetta ekki eini hópurinn sem þannig er komið fyrir hjá í dag, heldur er fólk í Afganistan, í Venesúela, í Sýrlandi eru yfir 40 manns, ef ég man rétt, með sambærilega stöðu,“ sagði Bjarni og hélt áfram:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Um það snýst málið.

„Í engu tilviki höfum við verið að undirbúa það að fara og sækja fólk eða hjálpa því sérstaklega að komast út úr Afganistan, svo dæmi sé tekið, þó að sögulega séu dæmi um að við höfum hjálpað fólki sem hefur fengið stöðu hér í raun og veru á grundvelli þess að vera það sem við köllum kvótaflóttafólk. Við höfum hjálpað því með vegabréf og aðra slíka hluti. En vegna þeirrar hörmulegu stöðu sem er uppi á þessu svæði þá höfum við á undanförnum vikum, alveg síðan í desember, verið að gera okkur grein fyrir því hvaða reglur gilda um það að komast út af svæðinu og hvað aðrir hafa verið að gera. Það sem stendur upp úr í því er að aðrar þjóðir hafa fyrst og fremst verið að sækja eigin ríkisborgara og tryggja fjölskyldusameiningar við þá. Samhliða því hafa viðkomandi ríki í einstaka tilvikum hjálpað dvalarleyfishöfum út af svæðinu. Þess vegna gerist það þegar íslensk stjórnvöld leggja fyrir listann um fjölskyldusameiningar til Íslands að það vekur athygli stjórnvalda þarna úti að þar er ekki um neina ríkisborgara á Íslandi að ræða eða fjölskyldusameiningar við ríkisborgara. Þetta hefur orðið til þess að við höfum fengið þau skilaboð að þetta geti kallað á viðbótarathugun. En að sjálfsögðu er róið að því öllum árum að þessi aðgerð skili árangri. Við vonumst til þess að hún geti gert það. Um það snýst málið. Og á endanum erum við í því efni algerlega háð samstarfi og niðurstöðu, jákvæðri afgreiðslu, stjórnvalda á svæðinu,“ sagði utanríkisráðherrann.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: