„Hér er tækifæri til að taka neitunarvaldið af fjármálaráðherra“
„Eins konar klofning má nú sjá í litlu landi, verðbólga er nálægt tveggja stafa tölu, hraðar vaxtahækkanir þvert á nýleg skilaboð æðstu ráðamanna í efnahagsmálum, eignaójöfnuður hefur aukist en fjármagnstekjur eru í hæstu hæðum og stríð þrýstir verðbólgunni enn ofar á meðan verðmæti sjávarafurða hefur snarhækkað. Hvernig væri ef fólkið sem stjórnar landinu hefði forystu um að tryggja að hvalreki vegna stríðs og verðbólgu dreifðist með sanngjörnum hætti um samfélagið? Í stað þess birtast fjárlög sem skella verðbólguaðhaldinu á sömu hópa og lenda nú í vandræðum,“ sagði Kristrún Frostadóttir Samfylkingu á Alþingi í dag.
„Í ljósi forystuleysis ríkisstjórnarinnar hefur þingflokkur Samfylkingarinnar lagt fram þingmál um samstöðuaðgerðir til að verja tekjulægri hópa, ungt fólk og barnafjölskyldur fyrir áhrifum verðbólgunnar, hækkunar húsnæðiskostnaðar og sporna við þenslu. Aðgerðirnar eru tímabundnar á meðan hækkanir ganga yfir til að freista þess að ná samstöðu um aðgerðirnar hér á Alþingi. Við leggjum til að komið verði á leigubremsu til að verja leigjendur fyrir tilhæfulausum hækkunum og halda verðbólgu í skefjum og beinum því til ríkisstjórnarinnar að beita vaxta- og barnabótakerfinu til að styðja við lágtekju- og millitekjuheimili vegna þrefalds höggs í formi aukinnar húsnæðisbyrði, hækkunar nauðsynjavara og þungra námslánagreiðslna. Til að sporna við þensluáhrifum aðgerðapakkans á hagkerfið er lagt til að fjármögnun verði tryggð, komið verði í veg fyrir að launatekjur séu ranglega taldar til fjármagnstekna hjá einstaklingum með félög í kringum atvinnurekstur og lagðir verði á tímabundnir hvalrekaskattar í formi viðbótarfjármagnstekjuskatts og sérstaks álags á veiðigjöld stórútgerðarinnar. Fyrir öllum þessum tekjuaðgerðum hafa ráðherrar Framsóknar og VG talað að undanförnu en þau virðast valdalaus í ríkisstjórninni. Hér er tækifæri til að taka neitunarvaldið af fjármálaráðherra, styðja samstöðuaðgerðirnar og veita landinu alvöruforystu á erfiðum tímum.“