Björn Leví Gunnarsson skrifaði:
„Réttlætingarsamfélagið“ byrjaði fyrir hrun þar sem blásið var á alla gagnrýni og hélt áfram eftir það í afneitun á ábyrgð. Fyrst var ekkert að, allir voru snillingar og gerðu ekkert rangt. Svo var allt að en engum að kenna, eða í mesta lagi einhverjum öðrum. Útlendingum eða eitthvað.
Þetta réttlæti einkennist af forherðingu gagnvart ábyrgð. Mistökin eru ekki viðurkennd, mútur í Afríku eru ekki mútur á Íslandi af því að lagatæknilega er ekki búið að klára einhvern lögfræðilegan hluta hérna. Tungumálinu er rænt í lagatæknilega útúrsnúninga á sama tíma og það þarf ekki að fara eftir lögum þegar kemur að dagpeningum ráðherra eða ferðakostnaði þingmanna. Þá er bara ekki komin hefð fyrir því að fara eftir lögum.
Við búum í réttlætissamfélagi þar sem gerðar eru afturvirkar skerðingar á lífeyri fólks og þeim gert að fara í gegnum dómstóla ef það á að fá rétt sinn. Réttlætissamfélagi þar sem æðstu ráðamenn skömmtuðu sér óhóflegar lífeyrisgreiðslur í tíð Davíðs Oddssonar, réttindi sem engum datt í hug að reyna einu sinni að afnema með tilvísun í mistök, óréttlæti eða misnotkun á valdi. Það hefði auðvitað ekki tekist að afnema þau lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra afturvirkt en samt var reynt að afnema réttindi almennra lífeyrisþega afturvirkt.
Réttlætissamfélagið Ísland hunsar rökstuddan grun um brot til þess að halda samtryggingu ráðamanna en reynir hvað það getur til þess að svindla á réttindum allra annarra. Þau taka áhættu með réttarkerfið sem á að þjóna þeirra hagsmunum. Þess vegna er Landsdómur ómögulegt tæki, samkvæmt þeim. Af því að það er réttlætistæki sem á að dæma um ábyrgð ráðamanna. Í hvaða samfélagi komast ráðamenn upp með að gagnrýna tækið sem dæmir um ábyrgð þeirra?
Svarið er augljóslega „réttindasamfélagi ráðamanna“.