Davíð Oddsson hefur verið í miklu stuði þegar hann skrifaði leiðara dagsins í dag.
„Hinn vestræni heimur hefur lofað hátt og opinberlega að fara í stórbrotnar efnahagsþvinganir á sjálfum sér vegna þess að álfar hafa knúið hann til að taka trú á manngert veður! Hvorki Rússland né Kína mun lyfta litla fingri í þá áttina næstu áratugina. En þau ríki munu hins vegar græða vel á uppátækinu. Rétt eins og Kína sendi veiruna frá Wuhan og sendi Vesturlandabúum því næst grímur í tonnatali fyrir dollara, þótt innst inni hafi fæstir haft nokkra trú á því að grímurnar virki!“
Þetta er svo sem ekki allt.
„Hvorki Kína, önnur Asíuríki, Afríka eða Suður-Ameríka koma nálægt því að þrengja að Rússum vegna Úkraínu. Vesturveldin munu halda áfram að halda Rússum uppi viðskiptalega hvað sem öllu tali um efnahagsþvinganir líður. Ísland hefur hins vegar tilkynnt að rússneskir ferðamenn fái ekki að koma til Íslands til að eyða hér peningum. Það hljómar fremur sem efnahagsþvinganir á íslenska ferðaþjónustu heldur en á Rússa. Þeir eru gamansamir í utanríkisráðuneytinu einmitt þegar ferðaiðnaðurinn kastar mæðunni eftir veiruna. Voru þessar „efnahagsþvinganir“ ræddar á þingi. Eða er það enn að telja atkvæði í Borgarnesi?“
Örugglega er hægt að svara spurningu Moggaritstjórans neitandi. Nú, sem og á tíma Davíðs, er ekki haft mikið samband við þingið þegar eitt og annað er ákveðið. Til dæmis þegar Davíð og Halldór heitinn Ásgrímsson ákváðu tveir að Ísland tæki þátt í árásunum á Írak.