Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati skrifar sérstaka færslu á Facebook. Þar kvartar hann yfir hlutskipti sínu: „Þetta er á engan hátt sérstakt við mig, nema að ég lendi kannski meira í því vegna þess að ég er þingmaður núna og neyðist því til að taka þátt í fleiri leiðinlegum samtölum en þú, þar sem ég er, á einn eða annan hátt, að reyna að afla flokki mínum vinsælda. Eða allavega ekki óvinsælda,“ skrifar hann.
Skrif sín byrjar Helgi Hrafn svona: „Kæri Helgi Hrafn Gunnarsson í fortíðinni. Helgi Hrafn Gunnarsson í framtíðinni hér. Mig langar að deila einu með þér.
Eitt finnst mér koma merkilega oft upp í samtölum við annað fólk, en það er að það telur sig geta ákveðið fyrir mig, hvað mér finnist eða hvaða afstöðu ég hafi til tiltekinna mála.“
Næst kom kaflinn sem var byrjað á hér. Síðan skrifar Helgi Hrafn:
Þetta er á engan hátt sérstakt við mig, nema að ég lendi kannski meira í því vegna þess að ég er þingmaður núna og neyðist því til að taka þátt í fleiri leiðinlegum samtölum en þú, þar sem ég er, á einn eða annan hátt, að reyna að afla flokki mínum vinsælda. Eða allavega ekki óvinsælda.
„En þetta kemur sérstaklega fram í samtölum um atkvæðagreiðslur á þingi. Snemma á þingferli Pírata tókst delludoktorum að telja fólki trú um að Píratar tækju ekki afstöðu því þeir sátu oftar hjá en aðrir flokkar á þingi. Nú eru algjörlega eðlilegar ástæður fyrir því að við sátum oftar hjá en aðrir flokkar í þá daga, en það er ekki það sem mig langaði að deila með þér, heldur að benda þér á eitt sem flest fólk virðist ekki uppgötva á neinum tímapunkti á lífsleiðinni.
Það er hvernig fólk virðist telja sig geta ákveðið afstöðu annarra.
Nú ætti þetta að vera augljóst. Það ákveður hver einasti einstaklingur sjálfur sínar eigin skoðanir og afstöðu. Þú segir mér ekki hvaða afstöðu ég tek eða hvað ég meina. Ég segi þér það.
Ef ég sit hjá í einu máli vegna þess að ég er hlynntur einum hluta þess en mótfallinn öðru, þá er það þannig. Ef ég sit hjá í því vegna þess að mér finnst málið ganga skammarlega skammt í rétta átt, þá er það þannig. Ef ég sit hjá því að ég tel málið gott, en er einfaldlega ekki nógu viss um útfærsluatriði sem ég tel mikilvæg, þá er það þannig. Aðrir þurfa ekkert að samþykkja slíkar skýringar. Það er ekki annarra að vera „sammála“ því. Hvað þér finnst, og hvað þú meinar, er ákveðið af einum einstaklingi í gjörvöllum alheiminum, og sá einstaklingur er þú.
Hlustaðu vel þegar fólk segir þér hvað þér eigi að finnast, en ekki láta fólk segja þér hvað það er, sem þér finnst.
Bestu kveðjur úr framtíðinni. Byrjaðu að forðast annað fólk og neita að taka í hendina á því í byrjun 2020. Það verður skrýtið í byrjun en þú verður á undan tískunni.
Þú, Helgi.“