„Mér finnst vanta að gerðar séu athugasemdir við það þegar kemur blákaldur óheiðarleiki frá háttvirtum þingmönnum í ræðum um þetta mál, blákaldur óheiðarleiki, sem einungis af tæknilegum ástæðum er ekki alveg hægt að kalla lygi svo að staðreynd sé. En blákaldur óheiðarleiki,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson um orkupakkann, þegar hann kom í ræðustól til að ræða fundarstjórn.
„Það er allt í góðu að hafa ólíkar skoðanir á þessu, að hafa ólíkar skoðanir á lagatúlkunum og þannig. En þegar háttvirtir þingmenn láta eins og að þeir fræðimenn sem hafa sent inn umsagnir segi annað en þeir segja þá eru þeir óheiðarlegir. Þeir eru að gera mönnum úti í bæ, sem ekki eru hér til að verja sig, upp skoðanir sem þeir hafa sagt algerlega skýrt að þeir hafi ekki. Sömuleiðis með það að þessir fyrirvarar finnist ekki. Þeir bæði finnast í greinargerðinni, eins og háttvirtir þingmenn vita mætavel.“
Þorsteinn Sæmundsson steig næst í pontu, ósáttur við Helga Hrafn:
„Ég var næstum því búinn að hrósa háttvirtum þingmanni Helga Hrafni Gunnarssyni áðan fyrir að hann væri málefnalegur, eða því sem næst. En mér verður ekki kápan úr því klæðinu að gera það eftir þessa síðustu ræðu. En ef háttvirtum þingmanni liggur eitthvað á hjarta um dagskrármálið, um dagskrármálið, er um að gera fyrir hann að setja sig á mælendaskrá og taka umræðuna þar. Umræðu um það sem háttvirtur þingmaður bar hér fram núna tökum við nefnilega ekki undir liðnum fundarstjórn forseta.
Auðvitað á maður í sjálfu sér ekki að standa upp og svara svona skítkasti sem kemur fram undir þessum lið en ég hvet háttvirtann þingmann að setja sig á mælendaskrá og taka efnislega þátt í þessari umræðu sem mun standa hér eitthvað fram eftir degi.“