- Advertisement -

Helga Vala vill verða varaformaður

„Ég mun á landsfundi gefa kost á mér í forystu Samfylkingarinnar og býð fram krafta mína í embætti varaformanns flokksins. Hlutverk varaformanns er afar mikilvægt, ekki síst að rækta hópinn, leiða flokksfólk um allt land saman í samstarfi við formann flokksins og búa til þá einstöku liðsheild sem mun skila okkur að settu marki. Stjórnmál eru hópverkefni þar sem enginn einn er merkilegri en annar heldur hver hlekkur með sitt hlutverk. Það er þetta verkefni sem mig langar að taka að mér að leiða og vonast eftir stuðningi ykkar í,“ segir meðal annars í bréfi sem Helga Vala Helgadóttir hefur sent flokkssystkinum í Samfylkingunni.

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi er núverandi varaformaður. Óvíst er hvað hún gerir.

Bréf Helgu Völu er svona:

„Kæru flokkssystkin

Þú gætir haft áhuga á þessum

Komandi vetur verður hvort tveggja í senn krefjandi og áhugaverður. Við í landsmálunum munum áfram takast á við stór pólitísk mál er varða hvernig samfélag við viljum byggja í kjölfar Covid-kreppu, hvernig við komum okkur af stað út úr skaflinum og leggjum við í þingflokki Samfylkingarinnar hér eftir sem hingað til höfuðáherslu á að vinna að jöfnuði og mannréttindum, tryggja sterkt velferðar-,mennta-  og heilbrigðiskerfi og efla fjölbreytt atvinnustig um allt land.

Þingkosningar verða haustið 2021 og því má búast við að skjálftinn við ríkisstjórnarborðið fari vaxandi enda flokkarnir í grunninn með ólíka stefnu þótt ekki hafi borið sérstaklega mikið á því að undanförnu. Hlutverk okkar í Samfylkingunni verður að bjóða fram skýran og betri valkost fyrir almenning í landinu. Valkost sem þorir að hugsa út fyrir rammann, sem þorir að beita sér fyrir nútímalausnum en ekki endurunnum lausnum gamalla tíma. Ég er þess fullviss að ef við komum samstíga og kjörkuð fram með skýra framtíðarsýn þá munu kjósendur treysta okkur í Samfylkingunni fyrir lyklunum að stjórnarheimilinu.

Það má finna síaukinn áhuga á Samfylkingunni. Nýtt fólk á öllum aldri gengur nú til liðs við flokkinn og á dögunum var haldið kröftugt landsþing Ungra jafnaðarmanna þar sem ný forysta var kosin. Næst á dagskrá er svo landsfundur sem fram fer 6. og 7. nóvember nk. Á þeim fundi munum við ræða stefnu Samfylkingarinnar og hvaða mál við viljum setja á oddinn í komandi baráttu. Á þeim fundi munu landsfundarfulltrúar einnig velja þá forystu sem leiða á flokkinn í næstu kosningum. 

Ég mun á landsfundi gefa kost á mér í forystu Samfylkingarinnar og býð fram krafta mína í embætti varaformanns flokksins. Hlutverk varaformanns er afar mikilvægt, ekki síst að rækta hópinn, leiða flokksfólk um allt land saman í samstarfi við formann flokksins og búa til þá einstöku liðsheild sem mun skila okkur að settu marki. Stjórnmál eru hópverkefni þar sem enginn einn er merkilegri en annar heldur hver hlekkur með sitt hlutverk. Það er þetta verkefni sem mig langar að taka að mér að leiða og vonast eftir stuðningi ykkar í.

Kæru flokkssystkin. Horfum björt fram á veginn. Með samstöðu og samvinnu náum við þessu. Byrjum á landsfundi, höldum brött inn í veturinn og munum að láta ekki kappið bera fegurðina ofurliði.

Ég vil að lokum hvetja ykkur öll til að skrá ykkur á landsfund svo við getum saman mótað okkar sýn til framtíðar.

Ykkar einlæg,

Helga Vala Helgadóttir.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: