Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vill að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, leiðrétti ummæli sín án tafar. Hún segir hann fara rangt með í opinberu bréfi til Piu Kjærsgaard.
„Mér þykir miður að forseti Alþingis, Steingrímur J Sigfússon, kjósi að hafa rangt við í fréttatilkynningu sinni sem og sérstöku sendibréfi sínu til Piu Kjærsgaard sem hún birtir á facebook síðu sinni.
Steingrími, sem og öllum þeim sem fylgst hafa með umræðunni síðustu daga er ljóst að mótmæli mín sneru ekki að henni sem fulltrúa danskrar þjóðar heldur hennar framgöngu og hatursorðræðu gagnvart útlendingum og flóttamönnum. Með rangfærslum sínum hefur Steingrímur þannig kosið að stilla upp þeirri sviðsmynd að þau okkar sem mótmælum hatursorðræðu og stöndum með mannréttindum allra séum með því að kasta rýrð á danska þjóð. Svo er alls ekki og get ég ekki annað en krafist þess að hann leiðrétti þessi ummæli sín án tafar.
Ég hef í dönskum fjölmiðlum reynt að leiðrétta þessi ummæli Steingríms og fer fram á að hann geri slíkt hið sama.
Ég er þakklát fyrir allar þær fjölmörgu kveðjur sem ég hef fengið frá dönskum borgurum á síðustu sólarhringum. Það er ljóst á þeim kveðjum að rétt eins og hér aðhyllast Danir mannréttindi og jöfnuð nú sem fyrr.“