Hekla hf. kallar inn 81 bíl af gerðinni Audi Q5 með panorama sólþaki árgerð 2011 til 2016. Ástæða innköllunar er möguleg tæring í þrýstihylki fyrir höfuðlíknabelgi, sem getur orðið til þess að þeir geta blásið út án ástæðu og valdið meiðslum á farþegum í aftursætum.
Skoðun og viðgerð felst í að skoðað er hvort vatn hefur safnast fyrir í toppi, sem getur orðið ef stífla er í afrennsli fyrir sólþak. Ástand loftpúðahylkis er skoðað og ryðvarnarvax er borið á það. Ef óeðlileg tæring er á loftpúðahylki er skipt um það.
Eigendum viðkomandi bíla verður sent bréf vegna innköllunar á næstu dögum.
Neytendastofa hvetur bifreiðaeigendur til að fylgjast vel með hvort að verið sé að innkalla þeirra bifreiðar og hafa samband við bílaumboðið ef þeir eru í vafa.