Þeirra tími kom í gær. Því fagnar réttlátt fólk. Aðrir fara í fýlu.
Sigurjón Magnús Egilsson skrifar:
Fáir menn eru eins auðlesnir og Davíð Oddsson. Hann er ekki svo gamall. En hann eldist hratt ef hann gerist ólæs á samtímann. Sem hann virðist vera að gera. Davíð virðist ófær um að skilja sér yngra fólk.
Hann annað hvort getur ekki skilið, eða vill ekki skilja, þær breytingar sem hafa orðið. Hann byrstir sig yfir verkfalli Eflingar. Það eitt og sér kemur ekki á óvart. Fyrir það fær hann jú borgað.
Í Staksteinum dagsins skrifar hann:
„Í fyrradag sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar um það verkfall sem þá var yfirvofandi: „Ég hlakka mikið til.“ Undir þessi sérkennilegu orð tók sem betur fer enginn, enda verkfall ekkert tilhlökkunarefni.“
Gefum okkur að hann skrifi þetta út frá eigin hugsunum en ekki hagsmunum þeirra sem greiða honum fyrir þaulsetuna í Hádegismóum. Eins augljóst, og hægt er, sagðist formaður Eflingar hlakka til dagsins með konunum sem enginn hefur hlustað á til þess. Konunum sem enginn hefur virt viðlits. Þeirra tími kom í gær. Því fagnar réttlátt fólk. Aðrir fara í fýlu.
Verði þeim að góðu.
Loksins hefur verkafólk fengið forystufólk sem sækist ekki eftir félagsskap sumra og telur þá ekkert vera merkilegri en annað fólk. Loksins.
Vel fer á að endurbirta þetta graf sem birtist í Mogganum í gær. Á því sést að löngu var kominn tími til að hótelþernu fengju rödd í samfélaginu. Hvað sem heimsins mestu fýlupúkar segja.