- Advertisement -

Heimsmet í heimsku

Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi:

Heimsmet, ekki bara í sköttun á tjóni, heldur einnig heimsmet í heimsku. Nei, bæði þessi heimsmet hafa þegar verið slegin með því að skerða einnig 65% í viðbót hjá veiku og öldruðu fólki í almannatryggingakerfinu. Tökum þessi heimskuheimsmet í skattheimtu og skerðingu út úr kerfinu strax, gerum alla jafna fyrir lögum. Í stjórnarskránni er eignarrétturinn friðhelgur og því er furðulegt að í 0% verðbólgu sitji allir við sama borðið en þegar verðbólgan lætur á sér kræla þá má slá heimsmet í heimsku, sköttum og skerðingum á fjármagnstekjum.

Hér er svo öll ræða Guðmundar Inga:

Virðulegur forseti. Frítekjumörk öryrkja vegna fjármagnstekna eru svo lág að sparifé þeirra ber í raun neikvæða vexti. Frítekjumark fjármagnstekna hans eru um 90.000 kr. á ári. Einstaklingur sem er með 1 milljón í banka í 10% verðbólgu yrði skattlagður um 220 kr. af hverjum 1.000 kr., en um ungan einstakling með örorkumat gilda frítekjumörk og því skerðist framfærsluuppbótin um 65% í viðbót. Þarna er verið að skatta og skerða tapaða ávöxtun sparifjár fatlaðs einstaklings. Hans 1.000 kr. verða 300 kr. Þeir sem hafa 90.000 kr. frítekjumark á fjármagnstekjur almannatrygginga sleppa við skerðingar í fyrstu en lenda í þeim síðar og skerðast þá um 65% í viðbót eða allt að 70% fer í skatt og skerðingar. Í Staksteinum Morgunblaðsins 16. ágúst síðastliðinn segir orðrétt um skatt og tap af ávöxtun sparifjár, með leyfi forseta:

„Þær eru miklar mannvitsbrekkurnar sem hafa komið þessu kerfi á og viðhalda því og eru augljóslega á mun æðra plani vitsmunalega en við almúginn sem látum þetta yfir okkur ganga. Þessir vitringar ættu eiginlega að vera til sýnis í glerkössum úti á Austurvelli í stað þess að vera lokaðir af hálfsofandi inni í steinkumbaldanum þar, svo merkileg eru þessi fyrirbæri. Var einhver að tala um virðingu Alþingis? Að skattleggja verðrýrnun og tjón hlýtur að vera heimsmet, ekki bara í skattlagningu heldur líka í heimsku.“

Heimsmet, ekki bara í sköttun á tjóni, heldur einnig heimsmet í heimsku. Nei, bæði þessi heimsmet hafa þegar verið slegin með því að skerða einnig 65% í viðbót hjá veiku og öldruðu fólki í almannatryggingakerfinu. Tökum þessi heimskuheimsmet í skattheimtu og skerðingu út úr kerfinu strax, gerum alla jafna fyrir lögum. Í stjórnarskránni er eignarrétturinn friðhelgur og því er furðulegt að í 0% verðbólgu sitji allir við sama borðið en þegar verðbólgan lætur á sér kræla þá má slá heimsmet í heimsku, sköttum og skerðingum á fjármagnstekjum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: