- Advertisement -

Heimilin þurfa að hækka sína gjaldskrá / Húsnæðisliðurinn fari út úr vísitölunni

Ásthildur Lóa Þórsdóttir:
„Í lífskjarasamningunum var samið um að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni. Þeirri aðgerð var jú frestað en hún var ekki slegin af borðinu.“

„Ég velti því fyrir mér hvernig ríkisstjórnin sjái fyrir sér kjaraviðræðurnar sem verða í haust. Hvert heimili er í raun hagkerfi þar sem launin þurfa að duga fyrir fæði, klæði og húsnæði. Húsnæðiskostnaður hefur þegar hækkað um tugi þúsunda hjá mörgum, ekki hvað síst þeim sem eru á leigumarkaði. Á mörgum heimilum, jafnvel flestum, er ekkert svigrúm til að mæta svona hækkunum. Þau þurfa því, alveg eins og fyrirtæki, að hækka sína gjaldskrá,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir Flokki fólksins.

„Nú þegar eru mörg dæmi um 30.000 kr. hækkun á leigu á nokkrum mánuðum. Til að bæta launþegum það þarf verkalýðsforystan að semja um a.m.k. 50.000 kr. launahækkun. Er ríkisstjórnin til í að skrifa upp á þannig launahækkanir eða ætlar hún þá að hefja gamla sönginn um hófsemi og ábyrgar kröfur? En hvað með hófsemi og ábyrgð þeirra sem öllu ráða? Hvar er t.d. hófsemin í vaxtahækkunum og arðgreiðslum bankanna? Hvar er ábyrgð ríkisstjórnar sem fórnar heimilum fyrir hagvöxt?“

Ásthildur Lóa er á sömu línu og Framsóknarflokkurinn. Vill að húsnæðisliðurinn verði tekinn úr vísitölunni. Hún sagði:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Í lífskjarasamningunum var samið um að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni. Þeirri aðgerð var jú frestað en hún var ekki slegin af borðinu. Án húsnæðisliðarins í vísitölunni værum við ekki að horfa á 5,7% verðbólgu heldur 3,7%. Það að taka hann út úr myndinni myndi muna öllu fyrir heimilin eins og staðan er í dag. Af hverju er það ekki gert? Heimilin þurfa, alveg eins og fyrirtækin, að auka við tekjur sínar þegar framfærslukostnaður þeirra eykst. Þetta veit verkalýðsforystan og hún mun ekkert gefa eftir í haust. Þá verður ekki hægt að mæta fólkinu sem ber uppi þjóðfélagið með kröfum um hófsemi eða tali um að hagkerfið standi ekki undir þessum launakröfum. Það sem fólkið mun horfast í augu við er að heimili þeirra stendur ekki undir öllum þeim hækkunum sem á því hafa dunið. Það mun því vilja, alveg eins og fyrirtækin sem yfirleitt njóta skilnings, hækka sína verðskrá og lái þeim hver sem vill. Ríkisstjórnin er með þetta í hendi sér. Það sem hún gerir núna mun skipta sköpum í haust. Hvað ætlar hún að gera?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: