- Advertisement -

Heimilin eru ekki fóður fyrir bankana

Verðbólgan hefur bar aukist síðan Seðlabanki hóf vaxtahækkanirnar.

Verðbólgan vex og vex og er komin í tveggja stafa tölu. Hún hefur bara hækkað síðan Seðlabankinn hóf vaxtahækkanir sínar. Vaxtahækkanir eru eins og að pissa í skóinn sinn. Það er verið að laga tímabundinn vanda með því að búa til enn þá stærri vanda í nálægri framtíð. Verðbólgan er tímabundin og 10% verðbólga kostar heimilin 10–50.000 kr. á mánuði. Það er tala sem flest heimili munu standast en þegar 130–200.000 kr. leggjast ofan á það vegna vaxtahækkana er um að ræða allt annað mál. Þetta munu mörg heimili ekki standast til lengri tíma.

Það var Þórhildur Lóa Þórsdóttir, sem sagði þetta á Alþingi fyrir skömmu.

En hvað hefði Seðlabankinn, hugsanlega í samvinnu við ríkisstjórnina, getað gert annað en að beita vaxtahækkunum í verðbólgu? Það hefði t.d. verið hægt að beita vaxtahækkunum á markvissan hátt með því að hækka eingöngu vexti á nýjum lánum. Það hefði verið hægt að taka upp þrepaskiptan skyldusparnað til að slá á einkaneyslu og auka sparnað þeirra sem skulda minna og eyða meira en vaxtahækkanir bíta síður á. Seðlabankinn ætti kannski líka að láta svo lítið að hlusta á Christine Lagarde, seðlabankastjóra Evrópu, sem hefur sagt að verðbólgan muni lækka, hvort sem seðlabankar hækki vexti eður ei. Hann hefði líka getað þrýst á stórfellda uppbyggingu á húsnæðismarkaði til að bregðast við helsta áhrifaþætti hárrar verðbólgu á Íslandi til lengri tíma litið. Seðlabankinn hefði mátt hvetja stjórnvöld, banka og fyrirtæki til að stilla arðsemi í hóf og taka þannig þátt í að halda niðri helstu áhrifum verðbólgu nú um stundir, að þeir ættu að sýna samfélaginu ábyrgð og virðingu. Hann hefði getað kallað eftir leiguþaki og hvalrekaskatti á ofurgróða fyrirtækja. Síðast en ekki síst mætti Seðlabankinn hugsa um fólkið í landinu og afleiðingar þessarar rörsýnar hans á hag þess og velferð.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Allt þetta og fleira verður rætt á samstöðufundi Hagsmunasamtaka heimilanna, Heimilin í fyrsta sæti, í Iðnó í kvöld kl. 20. Ég vona að sem flestir sjái sér fært að mæta og standa með okkur í baráttunni fyrir heimilunum og réttlæti. Heimilin eru ekki fóður fyrir bankana.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: