Bærinn Steinar undir Austur-Eyjafjöllum dregur nafn af tveim steinum, mjög stórum, milli Núpakots og Hellnahóls. Steinar þessir eru nefndir Kirkjusteinar. Lækur rann fyrir austan bæinn; var hann vatnslítill að jafnaði, en gat orðið lítt fær í leysingum.
Í gamla daga var margbýli að Steinum, allt upp í átta búendur, en ekki munu þeir allir hafa haft mikið landrými til umráða.
Sú sögn er til um Steinalæk, að eitt sinn hafi fjórir bændur búið að Steinum; einn þeirra hafi átt alla torfuna. Varð hann, einhverra orsaka vegna, að selja jarðirnar allar fyrir lítið verð. Lagði hann á, að þær skyldu fara fyrir minna, og mundi lækurinn eyða jörðina, en þó ekki meðan Steinakirkja væri við líði.
Steinafólkið sofnaði nú út frá buldri lækjarins og regnhljóðinu á baðstofuþekjun
Steinakirkja var lögð niður 1882; aðrir segja 1889. — Það var jólakvöld 1926. Heimilisfólkið í Steinum naut jólagleðinnar á gamla og góða sveitavísu. Jólaljósin í lágu baðstofunni hrökktu á brott skammdegismyrkrið, en regnið buldi á þekjunni án afláts og niðurinn í læknum virtist öllu háværari en endranær.
Í Steinum var tvíbýli, þegar atburður sá gerðist er hér verður skráður, austur og vesturbær. Austurbærinn var þó ekki í beinu framhaldi af vesturbæ, heldur nokkru norðar, og náðu saman útihús beggja bæja. í eystri bænum bjó Ólafur Símonarson. Var hann lengi formaður undir Fjöllum og þótti heppinn og aflasæll. Hann er nú búsettur í Vestmannaeyjum. Kona Ólafs hét Þórdís, látin fyrir alllöngu. Annað heimilisfólk Ólafs og Þórdísar var Georg Skæringsson, unglingspiltur til snúninga, Guðjón, sonur þeirra hjóna og kona úr Reykjavík, er dvaldi á heimilinu til aðstoðar við innanbæjarstörf, því kona Ólafs var mjög heilsuveil. Í vesturbænum bjó maður að nafni Björn Jónasson með konu sinni. Þar var og dóttir þeirra hjóna.
Steinafólkið sofnaði nú út frá buldri lækjarins og regnhljóðinu á baðstofuþekjunni. En klukkan 2 um nóttina vaknar það við vondan draum. Vatnshljóð ógurlegt buldi á bæjarhúsunum. Á svipstundu var bærinn allur umflotinn vatni og barst grjót með flaumnum.
Ólafur snarast út, fáklæddur mjög. Var þá ærið ömurlegt umhorfs. Lækurinn hafði breytt stefnu; í stað þess að renna venjulega leið fyrir austan bæinn hafði hann grafið sér farveg gegn um margra mannhæða hátt barð og stefndi nú beint á Steinabæ. Var ekki annað sýnna, en lækurinn mundi sópa burt bænum ásamt útihúsum og öllu er þar hafðist við, dauðu og lifandi, og bera fram til sjávar. Svartamyrkur var og brostið á hríðarveður.
í þennan mund braust út Björn bóndi í vesturbænum ásamt dóttur sinni og vildu þau freista að bjarga nokkrum hestum úr hesthúsi. Hesthúsið stóð í mýri fyrir austan bæinn og sunnan. Þeim Birni tókst að koma hestunum út. Þá héldu þau feðgin til fjóss, er var vestan bæjarins. Til þess að komast til fjóssins urðu þau að taka á sig stóran krók niður í mýrina, þar sem flóðsins gætti minna. Loks náðu þau að fjósinu. Þau leystu nú kýrnar og fengu komið þeim öllum í helli einn, um stundarfjórðungs gang frá bænum.
Steinafólkið sofnaði nú út frá buldri lækjarins og regnhljóðinu á baðstofuþekjun
Þeir feðgar Ólafur og Guðjón sáu, að ekki var viðlit að hafast við í baðstofunni stundinni lengur. Tóku þeir húsfreyju, vöfðu sæng um hana og báru út. Hugðust þau freista að hafast við uppi á þaki á bæjarhúsum Björns, en flóðið reif þau brátt með sér, hvert af öðru. Þá hrökkluðust þau á skemmumæni Ólafs. Með þeim var kona Björns, er Guðjón bjargaði úr rústunum. Var hún komin fram í bæjargöng, en þau fylltust brátt vatni. Fékk Guðjón náð taki á henni og dró upp á þekjuna til þeirra, er þar voru fyrir. Georg og aðkomukonan urðu viðskila við Ólaf og fólk hans; þau komust á hlöðumæni og fengu borgið sér þar unz flóðið sjatnaði.
Eins og geta má nærri var líðan fólksins hin versta; það var fáklætt, ekki þurr þráður á því, og kona Ólafs sárveik. Fór Ólafur úr jakka, er hann hafði hramsað með sér, og færði konuna í hann. Hélst enn illviðrið sleitulaust.
Allt í einu minnist Ólafur þess, að peningaveski hans, með nokkru skotsilfri, muni liggja eftir í baðstofu. Hann brýst þegar inn í baðstofuna, næstum fulla af vatni og fær náð veskinu. Þá sér Ólafur, að hundurinn stendur uppi á kofforti í baðstofunni og ber sig aumlega. Tókst Ólafi við illan leik að bjarga seppa upp á þakið.
Fólkið hafðist við á þökum bæjarhúsanna þeirra, er uppi stóðu þessa ömurlegu óveðursnótt til kl. 7 um morgunin. Þá fyrst lægði flóðið austan bæjarins, en að vestan hélst sami flaumurinn allan daginn.
Af Birni og dóttur hans er það að segja, að þau komust heim um morgunin er flóðið tók að lægja.
Það var óhugnanleg sjón er blasti við Steinafólkinu, þegar birti af degi. Allir kálgarðar voru gersamlega eyðilagðir; þar var urð ein. Matvæli og húsmunir lágu eins og hráviði út um alla mýri, raftar úr sumum útihúsunum og máttarviðir höfðu jafnvel borist alla leið fram á fjöru eða út á sjó. Obbinn af engjunum var eyðilagður af grjót- og malarburði; annar veggurinn af lambhúsinu horfinn; fjárhúsið hékk enn uppi. Fjósið var hálffullt af sandi og vatni og kýrnar hörmulega leiknar. Tvær heyhlöður voru eyðilagðar og allt hey flotið burt, um 600 hestar. Tjónið allt var metið á 3500 kr., og þótt það væri allmikið fé í þá daga, fór því fjarri að tjónið væri að fullu bætt. Var hafist handa um samskot handa fjölskyldunum í Steinum og safnaðist talsvert fé, einkum í Reykjavík.
Atburður þessi olli því, að Ólafur Símonarson, er átti heimili að Steinum um hálfrar aldar skeið og vildi ógjarna hverfa þaðan lifandi, fluttist til Vestmannaeyja næsta vor eftir flóðið. Þar býr hann nú í góðri elli, glaður og gunnreifur, gengur að verkamannavinnu þegar færi gefst. Hann unir vel vel hag sínum þótt ýmislegt hafi á annan veg skipast en ætlað var. — En stundum hvarflar hugurinn heim til sveitarinnar, þar sem bærinn hans stóð í faðmi fagurra fjalla. Þar, sem bærinn hans var, er nú djúpt gil, sem varð til af völdum ægilegra náttúruafla hina eftirminnilegu jólanót fyrir 24 árum.
Har. Guðnason skráði eftir frásögn Ólafs Símonarsonar frá Steinum. Frásögnin birtist áður í 10. tbl. Heima er bezt árgangi 1951.