- Advertisement -

„…heim til hans, til Íslands“

„Við búum saman í einu herbergi við Klapparstíg. Við stefnum á að eignast saman eigið húsnæði.“

Viðmælandinn er Mercy, sem hefur starfað við umönnun aldraða í þrjú ár, en starfaði áður við hreingerningar.

„Við spjölluðum á netinu í tvö ár áður en hann kom til Senegal. Ef við eigum að gifta okkur þá verður þú fyrst að klippa af sér þessar rasta fléttur sagði ég við hann og hann klippti þær af sér og auðvitað var hann miklu sætari án þeirra. Við héldum látlaust brúðkaup með mömmu og vinum mínum, kvöddum Senegal og ég flaug með honum á nýju heimaslóðir mínar, heim til hans, til Íslands.

Í Senegal vann ég á saumastofu en sjálf kem ég og fjölskylda mín frá Nígeríu, borginni Edo sem liggur vestur af Lagos. Faðir minn dó þegar ég var ungabarn og kynntist ég honum aldrei en mamma giftist yngri bróður hans. Svona eru erfðalögin í Nígeríu. Ekkjan hefur ekkert tilkall til eignanna þegar karlinn fellur frá, húsnæði og aðrar eigur renna til fjölskyldu eiginmannsins. Ekkjan á val um að giftast yngri bróður hins látna eiginmanns og fá að búa áfram í eign sinni.

Vinir mínir í Nígeríu töldu mér trú um að ég ætti að byrja á því að fá mér vinnu við þrif til þess að komast inn í samfélagið. Ég fengi hvort eð er ekkert annað á meðan ég talaði ekki tungumálið. Ég þreif skrifstofuhúsnæði í nokkur ár í Reykjavík, en lærði enga íslensku á þeim tíma, af því ég var alltaf ein og ég var mjög einmana. Þrifin eru líkamlega erfið, ég fékk verki í axlir og mjaðmir og þurfti að taka verkjalyf til þess að geta haldið áfram að vinna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Áður þreif ég gólf og glugga en núna annast ég fólk sem hentar mér mun betur. Mér hefur farið fram í íslensku af því að ég tala við fólk.

Fyrir þrem árum, þegar ég réði mig á Grund, þá voru margir sem þurftu að snerta mig. Gamla fólkið spurði hvaðan ég kæmi, hvort að allir væru svartir í mínu landi. Er ekkert hvítt fólk? Er Suður-Afríka í Nígeríu? Nei, Suður-Afríka er allt annars staðar svaraði ég. Stundum skil ég ekki hvað fólkið hérna er að spyrja mig um og þá hringi ég í manninn minn og læt hann þýða í gegnum símann. Íris býr hérna, hún er svo vinalega við alla. Íris vill að ég fari í læknanám. Hún spyr mig reglulega hvort að mamma mín eða dóttir mín séu ekki örugglega að koma til Íslands.

Ég veit ekki hvort að mér var borgað eftir taxta þegar ég vann við ræstingarnar. Launin þar voru allavega lægri en í umönnun á öldrunarheimilinu. Ég lagði allavega ekkert til hliðar á þeim tíma. Á Grund vinn ég tvær vikur og á frí í tvær vikur og fæ um það bil 250 þúsund útborgað. En matur og leiga hafa hækkað síðan ég kom til Íslands. Núna get ég sent pening heim til Nígeríu og styrkt dóttur mína til að mennta sig. Ég sakna dóttur minnar og fjölskyldu í Nígeríu, einnig matarins og samverunnar við fólkið mitt.

Ég get aldrei horft á fótbolta af því ég verð svo stressuð, að mig verkjar í hjartað. Ég vil ekki lenda á spítala út af fótboltaleik og á meðan maðurinn minn horfði á HM leikinn á milli Íslands og Nígeríu sat ég út á svölum og beið af mér leikinn til enda. Við búum saman í einu herbergi við Klapparstíg. Við stefnum á að eignast saman eigið húsnæði.“

 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: