- Advertisement -

Heilsuferðamennska, sér einhver ljósið?

Við töldum hins vegar kröfur Kínverjanna um eignarhlut og aðstöðu ekki ásættanlegar.

Árni Gunnarsson skrifar:

Að undanförnu hafa orðið miklar umræður um hvernig staðið skuli að endurnýjun og eflingu ferðamennskunnar á Íslandi eftir að veiruskollinn hefur verið hrakinn á brott. Þar hafa heyrst raddir um, að nú skuli gera Ísland að heilsuparadís fyrir erlenda ferðamenn.

Í nokkur ár höfum við Gestur Ólafsson, arkitekt, lagt fram tillögur okkar um skipulag heilsuþorps á Íslandi. Þeim hafa fylgt viðskiptaáætlanir, teikningar og önnur undirbúningsvinna. Þessar tillögur höfum við lagt fyrir fulltrúa banka og fjárfestingarsjóða, en gengið bónleiðir til búðar. Við áttum frábært samstarf við sveitastjórn Flúðahrepps, sem var fús að leggja okkur til undurfagurt land, heitt og ferskt vatn og alla þá aðstöðu, sem henni var unnt að veita.

Fjármálaelítan á Íslandi skilur ekki þessar staðreyndir.

En snillingarnir í bönkunum og fjárfestingarsjóðunum, töldu peningana ekki koma nógu hratt og örugglega til baka. Kínverskt stórfyrirtæki sá hins vegar möguleikana og var tilbúið að leggja fram allt nauðsynlegt fjármagn. Við töldum hins vegar kröfur Kínverjanna um eignarhlut og aðstöðu ekki ásættanlegar.

Íslendingar hafa alla burði til að reka heilsuferðamennsku. Slík ferðamennska skilar stórum fjárhæðum í ríkissjóði Ungverjalands, Austurríkis og Þýskalands og fleiri landa.

Hér höfum við hreint loft, hreint drykkjarvatn, heitt vatn og gufu, víðáttur og náttúrufegurð, vel menntað heilbrigðisstarfsfólk, góðar samgöngur á legi og í lofti og hreint og gott hráefni til matargerðar. Og gleymum ekki grænmetisrækt á Flúðum.

Rekstrarkostnaður heilsuhótela á Íslandi yrði mun minni en víðast hvar erlendis, þar sem vatn er hitað upp með olíu eða gasi.

En fjármálaelítan á Íslandi skilur ekki þessar staðreyndir. Í þeirra stofnunum verður allt lánsfé að skila sér fljótt aftur með háum vöxtum og verðtryggingu. Ef bankarnir hefðu lánað Heilsuþorpum ehf, þó ekki nema brot af þeim fjárhæðum, sem þeir hafa lánað í hótelbyggingar, þá væri að Flúðum risið arðbært heilsuþorp, sem uppfyllti óskir manna í ferðabransanum um heilsuferðir til Íslands.

En í ferðabransanum sáu menn heldur ekki ljósið. Kannski eru einhverjir klókir og skilningsríkir fjármálamenn tilbúnir að reisa heilsuþorp í næstu framtíð. Ef svo kynni að vera, þá eru tillögur og áætlanir okkar Gests enn í fullu gildi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: