„Á endanum mun raunveruleikinn banka á dyr. Sjóðir ríkisins eru að klárast og lánskjör að versna. Hækkun bóta mun leiða til lækkunar gengis og minnkun skatttekna mun leiða til niðurskurðar. Aukið atvinnuleysi mun leiða til meiri fátæktar og vonleysis í samfélaginu. Ef haldið er áfram á sömu braut mun neyðin á endanum verða svo mikil að margfalt fleiri munu deyja af Covid-aðgerðunum en af sjúkdómnum sjálfum. Útilokað verður því að halda landinu lokuðu til 2022 og seinni bylgjur verða því óumflýjanlegar,“ þannig skrifar Jóhannes Loftsson, efna- og byggingarverkfræðingur, og Mogginn birtir.
Jóhannes er afar gagnrýninn á aðgerðir vegna Covid.
„Eina leiðin út úr þessari blindgötu er að heilbrigðisyfirvöld hætti þessum lífshættulega lögguleik og einbeiti sér aftur að því að bæta heilsu Íslendinga með raunhæfri stefnu sem er sjálfbær til lengri tíma. Áður en það gerist verður íslensk þjóð að vakna. Líf heillar þjóðar er að veði.“
Grein Jóhannesar er löng. Þar segir meðal annars:
„Aðgerðir sem í upphafi voru kynntar sem neyðarráðstöfun til skamms tíma svo að heilbrigðiskerfið réði við óþekkta drepsótt hafa smám saman breyst í að hefðbundnar lækningar hafa orðið að víkja fyrir óhefðbundinni löggæslu sem enginn veit hvenær muni enda. Slík alræðisinngrip í lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu kosta alltaf fórnir sem nú eru smám saman að koma í ljós.
Daglegir neyðarfundir hafa skapað ótta undiröldu í samfélaginu sem fólk þolir misvel. Ein afleiðing er sú að í lok júlí höfðu álíka margir framið sjálfsvíg og venjulega gera yfir heilt ár. Önnur afleiðing er að fólk er seinna að leita til læknis auk þess sem hundruðum læknisaðgerða hefur verið frestað. Það er dauðans alvara þegar alvarlegir sjúkdómar fá að ágerast og miðað við mat á áhrifum sambærilegra inngripa erlendis má áætla að fjöldi mannslífa hafi þegar tapast eða muni tapast vegna meðferðartafanna.
Gróft áætlað hafa aðgerðir yfirvalda þegar kostað 20-30 mannslíf til viðbótar við sjúkdóminn sjálfan. Það er samt bara toppurinn á ísjakanum. Mannskæðasta afleiðing djúprar kreppu er hinn óumflýjanlegi niðurskurður í heilbrigðiskerfinu sem koma skal. Í síðustu kreppu fór niðurskurðurinn yfir 200 milljarða á núvirði. Covid-kreppan stefnir hins vegar í að verða sú dýpsta í lýðveldissögunni og mun vara mörg ár. Skaði slíks niðurskurðar mun teljast í hundruðum mannslífa en ekki tugum. Þessi líf virðast þó ekki eins jöfn og önnur fyrir þá sem vilja fresta komu Covid með lögregluríki.
Hin stórhættulega löggæslulækningatilraun byggist á stjórnmálaloforði um að galdralækning sé rétt handan við hornið: Bóluefni sem læknar alla. Ekki er þó allt sem sýnist. Ef bóluefni finnst þá tekur þróun þess venjulega 10-20 ár til að tryggja að það sé öruggt. Krafan um flýtiþróun hefur nú orðið öryggissjónarmiðum yfirsterkari og því hafa bóluefnaframleiðendur krafist undanþágu frá skaðabótaábyrgð. Vernd bóluefnisins mun að auki verða takmarkaðri fyrir fólk í áhættuhópi og þrátt fyrir þróunarhraðann búast Svíar ekki við að geta byrjað að nota bóluefnið fyrr en í lok næsta árs eða byrjun 2022. Sama hlýtur því að gilda um Ísland því okkar bóluefni mun koma frá Svíþjóð. Loka verður landinu til 2022 ef yfirvöld ætla að halda núverandi stefnu til streitu. Ísland stefnir því í hrun af slíkri biblíusögulegri stærðargráðu að enginn hefur enn treyst sér til að meta skaðann.“