„Ýmis mál eru í ólestri, svo sem leghálsskimanir og rannsóknir á þeim sem voru fluttar til Danmerkur, með slæmum afleiðingum. Því miður virðist stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum vera sú að gefnar eru út tilskipanir á efstu stöðum; skilaboð sem virðist eiga að fylgja umyrðalaust. Sjónarmið lækna hafa ekki skilað sér til stjórnvalda. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.“
Þetta segir Theódór Skúli Sigurðsson, sem er í forsvari nærri eitt þúsund lækna, sem í síðustu viku afhentu fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins undirskriftir sínar, þar sem skorað er „á stjórnvöld að axla ábyrgð á stöðunni í heilbrigðiskerfinu“. Það er Mogginn sem ræðir við Theódór Skúla.
Ef rétt er er staðan afleidd.
Á Landspítala er ómögulegt að ganga lengra í sparnaði.
„Erfið staða á bráðadeild Landspítala, svo sem mannekla og langur biðtími sjúklinga eftir þjónustu, hefur verið til umfjöllunar að undanförnu. Í þeim efnum bendir Theódór á, að í heilbrigðiskerfinu haldist allt í hendur. Engin heildstæð framtíðarstefna sé í öldrunarmálum, þrátt fyrir mikla fjölgun eldra fólks sem alltaf þarf margvíslega þjónustu heilsugæslu og sjúkrahúsa,“ segir í Mogganum.
„Á Landspítala er ómögulegt að ganga lengra í sparnaði án þess að öryggi sé ógnað. Viðkvæmt jafnvægi, fjárveitinga og sparnaðar, verður að tryggja. En góðu hlutirnir; jú, greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu er minni en var og heilsugæslan hefur verið efld, svo hún var fær um að taka á móti álagi af völdum kórónaveirunnar. Sama má segja um starfsemi spítalans í faraldrinum, en auðvitað gengur ekki eins og gerðist á fyrstu mánuðum Covid-tímans að stórfyrirtæki þurfi að hlaupa undir bagga við kaup á nauðsynlegum tækjabúnaði, þótt slíkur stuðningur sé vissulega mjög virðingarverður.“
„Núverandi stjórnendur Landspítalans hafa setið lengi, hið besta fólk sem vill vel, en nær ekki þeim árangri sem þarf. Maður fær á tilfinninguna núna að þeir séu algjörlega ráðþrota gagnvart vandanum og finni ekki neinar alvöru lausnir sem haldi til langframa. Sé staðan þannig að ekki verði komist lengra í sparnaði, þyrftu stjórnendur að koma þeirri staðreynd til stjórnvalda. Nái þau skilaboð ekki í gegn, ætti stjórn Landspítalans að íhuga að segja sig frá verkinu til að undirstrika mikla alvöru málsins.“