Heilbrigðiskerfið er opinber þjónusta
„Þannig hafa stjórnmálamenn gengið þvert gegn vilja þjóðarinnar í málaflokki sem almenningur telur einn af þeim mikilvægustu fyrir þjóðina.“
„Aðalfundur Sameykis mótmælir harðlega fjársveltistefnu ríkisstjórnar Íslands í heilbrigðiskerfinu þar sem tilgangurinn er augljós – að einkavæða þjónustuna.“ segir í samþykkt frá aðalfundi Sameykis.
„Ríkisstjórnin hefur lengi fjársvelt
heilbrigðiskerfið og einungis einstök frammistaða starfsfólks í opinberri
þjónustu sem starfar í heilbrigðiskerfinu og hefur lagt á sig ómælt og
ómælanlegt erfiði heldur því gangandi við þröngan kost. Þó almenningur vilji að
hið opinbera eigi að sjá um rekstur heilbrigðiskerfisins hefur einkavæðing í
heilbrigðisþjónustunni aukist á síðustu árum,“ segir í ályktuninni.
„Þannig hafa stjórnmálamenn gengið þvert gegn
vilja þjóðarinnar í málaflokki sem almenningur telur einn af þeim mikilvægustu
fyrir þjóðina. Það er þekkt aðferð að svelta stofnanir og tiltekna málaflokka
svo megi einkavæða þá.
Talsmenn einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu tala
gjarnan um að ekki sé verið að einkavæða eitt né neitt, aðeins koma þjónustunni
eða tilteknum þáttum hennar í einkarekstur. Þetta er hreinn útúrsnúningur sem
virðist hafa þann eina tilgang að nota fallegra orð en einkavæðingu yfir
einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar. Aukinn einkarekstur í
heilbrigðiskerfinu er ekkert annað en einkavæðing á þjónustu sem veitt er
almenningi og á að greiðast með almannafé. Slíkum einkarekstri er náð fram með
opinberu stjórntæki í formi þjónustusamninga sem almenningur greiðir fyrir og
gefur sjálfstæðum aðilum tækifæri til að taka fé út úr rekstri
heilbrigðisþjónustunnar.
Aðalfundur Sameykis leggst alfarið gegn
einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar og gjaldtöku sem byggir einungis á
hagnaðarsjónarmiðum og krefst þess að almenningur fái þá þjónustu sem þörf er á
án þess að þurfa að greiða þriðja aðila sérstaklega fyrir úr eigin vasa.“