Öll vitum við að háttvirtur borgarstjóri er með 14 PR – fulltrúa á launaskrá. Þessa fulltrúa kalla ég boxpúðana, þeir taka höggin, milda þau og matreiða á jákvæðan hátt svo borgarstjórinn líti ávallt vel út. En það er júlí og margir í sumarfríi og hvort það geti verið að stór hluti boxpúðanna sé í fríi, get ég ekki sagt til um, en það lítur út fyrir það. Í heila tíu daga fossaði frárennslið úr skolpinu beint í fjöruborðið í vesturbænum og enginn sagði neitt. Þegar upp komst um málið fannst borgarstjórinn ekki. Margir dagar liðu og á samskiptamiðlum höfðu húmoristarnir útbúið skemmtilega fréttatilkynningu þar sem auglýst var eftir borgarstjóranum. Einn var svo fyndinn að segja að borgarstjórinn myndi klippa á borða þegar nýi lokinn kæmist í gagnið. Mörgum dögum síðar kemur frétt um að heilbrigðisyfirvöld í borginni höfðu litið svo á að ekki væri nein mengunarhætta yfirvofandi og því ákveðið að halda málinu leyndu. Seinna sama dag poppar borgarstjóri upp úr fylgsni sínu gapandi hissa þar sem hann hafði bara heyrt af þessu í fjölmiðlum. Þá voru fjölmiðlar búnir að tala um málið í marga daga. Boxpúðarnir hafa setið sveittir að finna út úr aðstæðum eftir að borgarstjóri skipaði heilbrigðisyfirvöldum borgarinnar að halda kjafti, en fundu bara enga lausn nema þá að borgarstjóri kæmi af fjöllum í málinu. Borgarstjóri gerir umhverfismálum hátt undir höfði sem er auðvitað jákvætt, en að þessi bilun geti varað svo dögum skiptir og þúsundir lítra af skolpi frussist um fjörur borgarinnar er vítavert – engin mengunarhætta er sagt, hvað með ef börn að leik hafi farið í fjöruna, eða fólk í göngu með hunda sína sem hefðu getað borið saur heim. Þetta snýst ekki bara um mengun, þetta snýst líka um sóðaskap.
Einkennilegt hvað við erum oft eftir á eða ekki sjálfum okkur samkvæm. Erlendar rannsóknir sýna að dýr hafa verulega góð áhrif á eldri borgara, fólk með félagsfælni, geðraskanir og framvegis. Í Svíþjóð eru dæmi um að á dvalarheimilum aldraða eru litlir dýragarðar og vistmenn þar eru mun hamingjusamari en þeir sem dvelja á slíkum heimilum án dýra. Þá býður Rauði Krossinn upp á heimsóknir með hunda til fólks sem er einmanna eða minna má sín. Á sama tíma er harðbannað að öryrkjar haldi dýr í svokölluðum öryrkjaíbúðum. Nýlegt dæmi er maður sem býr í bíl sínum, besti vinur hans er hundurinn hans, en þeir eiga hvergi innangengt saman. Við erum að berjast fyrir því að fá að fara með hundana í strætó, á kaffihús og víðar, en af hverju taka hundaeigendur sem eru í þeim slag ekki á sig að berjast fyrir hundahaldi þeirra sem gætu notið góðs að samverunni? Af hverju er til að mynda ekki ein blokkin í Hátúni hundablokk? Þar sem þeir sem vilja eiga hund geta verið saman. Ég er viss um að hundaeignin ein og sér tengi fólk saman, kalli fram vináttu og samveru og gleði í hjarta. Ég hvet Öryrkjabandalagið og þá sem standa að Sjállfsbjörg að googla aðeins og fræðast, ég hef meira segja trú á því að hundaeign gæti dregið úr lyfjanotkun til lengri tíma litið.
Dramað náði hámarki í Neytendasamtökunum í vikunni þegar formaðurinn gafst upp og sagði af sér. Ég batt vonir við Ólaf í samtökunum, langaði að sjá ferskt blóð sem tæki til hendinni en sá draumur er farinn fyrir lítið. Ég tel líklegt að stjórnin og klíkan í samtökunum hafi verið með það að markmiði frá upphafi að fella Ólaf. Fyrrum varaformaður samtakana var í útvarpsviðtali á dögunum og hægt var að lesa á milli línanna að hún vildi Ólaf burt, en varð þó að viðurkenna að hann hafi ekki brotið lög í störfum sínum. Þá kom besti parturinn í viðtalinu sem var sá að samtökin veita lögfræðiaðstoð og eina dæmið sem hún gaf var að ef úlpa skemmist í hreinsun, hvert ætlar þú þá að leita til ? Ef samtökin snúast um ónýtar flíkur í hreinsun þá er bara best að pakka saman og loka búllunni.
Fyrsta frétt á Stöð 2 á þriðjudag var að kona á sjötugsaldri býr á tjaldstæðinu í Sandgerði. Ég gat ekki annað en flissað, ekki yfir raunum konunnar, heldur æsifréttamennskunni um húsnæðisskort á Suðurnesjum. Þar hefur íbúafjölgun verið tæp 7% á einu ári og erfitt að finna húsnæði. Þá var Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Sandgerði kallaður á teppið í beina útsendingu í Skaftahlíðinni þar sem Sindri Sindrason, fréttamaður ætlaði að kála honum í beinni. Ólafur fór yfir stöðuna en þá sagði Sindri, „það er ekki nóg að segja sorry, hvað ætlar þú að gera í málinu?¨“ Ég hef ekki séð fréttamenn sækja svona að borgarstjóra þar sem þúsundir einstaklinga eru nánast á vergangi vegna húsnæðisskorts. Dagur borgarstjóri rífur fram framtíðarsýnina um íbúðir eftir 10-20 ár og allir klappa og fagna uppbyggingunni, samt gerist ekkert. Ólafur Þór, forseti þeirra sandgerðinga lét ekki æsifréttamennskuna ná sér og stóð sig vel, fyndið þegar kokhraustir fréttamenn ætla að slátra stjórnmálamönnum út á landi en þora aldrei í stóru bitana.
Takk fyrir og góða helgi,
Árni Árnason.