- Advertisement -

Hefur stuttbuxnadeildin yfirtekið Sjálfstæðisflokkinn?

Stjórnmál „Ég hef velt svolítið fyrir mér hver staðan er orðin í þessum efnum í Sjálfstæðisflokknum. Ég dreg þá ályktun miðað við mína pólitísku analýtísku hæfileika að í reynd hafi svokölluð stuttbuxnadeild eða stuttbuxnakynslóð Sjálfstæðisflokksins endanlega yfirtekið flokkinn,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi við umræður um áfengissölufrumvarp Vilhjálms Árnasonar.

VÁ SJSÞá var ég fjögurra ára

Vilhjálmur Árnason þakkaði Steingrími ræðuna og sagði „Það er ánægjulegt fyrir mig að hann flytji aftur sömu ræðuna og hann gerði þegar ég var fjögurra ára, eða 1987, og bjórbannið var hér til umræðu. Það er gott fyrir okkur að geta heyrt þetta.“

Hvar er húmaníski armur Sjálfstæðisflokksins?

Í ræðu sinni vék Steingrímur ákveðið að Sjálfstæðisflokknum: „Ég velti stundum fyrir mér: Eru engir Sjálfstæðismenn eftir sem láta það stundum eftir sér að hafa aðra sýn á hlutina en bara þessa þröngu, blindu nýfrjálshyggjumarkaðsvæðingarsýn? Hvar er húmaníski armur Sjálfstæðisflokksins sem á árum áður gaf þeim flokki breidd? Þá voru öflugir talsmenn innan raða Sjálfstæðismanna sem stóðu vörð um velferðarsamfélagið, stóðu vörð um ýmis gildi þess, þó að þeir væru borgaralega sinnaðir. Svo maður tali nú ekki um: Hvar er Árni Helgason, blessuð sé minning hans, Sjálfstæðisflokksins í dag? Eru þeir engir til lengur í Sjálfstæðisflokknum sem ýta kreddunum stundum til hliðar og taka raunsæisafstöðu þar sem húmanísk viðhorf, samfélagsleg, félagsleg viðhorf, hafa vægi á móti markaðskreddunum?“

Hvattur af Sjálfstæðismönnum

„Mér finnst fullgilt að bera upp þessa spurningu í ljósi þess hvílíkt ofboðslegt forgangsmál margra þingmanna Sjálfstæðisflokksins þetta greinilega er og að engar raddir skuli heyrast úr þeim ranni aðrar. Auðvitað veit ég betur. Ég veit að þau viðhorf eru ekki algild í Sjálfstæðisflokknum að þetta sé gáfulegur leiðangur. Ég hitti Sjálfstæðismenn á götu sem hvetja mig og aðra slíka áfram í því að reyna að koma í veg fyrir að þetta mál verði að lögum. Berjast gegn því. Þeir taka enn þá hina húmanísku samfélagslegu sýn á hlutina og vilja hafa hana í öndvegi en ekki kreddurnar,“ sagði Steingrímur meðal annars í ræðu sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: