- Advertisement -

Hefur Steingrímur J. þingforseti aldrei rangt fyrir sér?

Björn Leví Gunnarsson:
Forseti vill einfaldlega geta skammast í þingmönnum án þess að þurfa að útskýra hvað honum finnst athugavert við orðanotkun þingmanna.

„Það sem gerir þetta enn alvarlegra vandamál er að með þessu málar forseti sig út í horn. Forseti gerir þær athugasemdir sem hann gerir. Hann þarf ekki að útskýra þær og segir þær endanlegar. Með öðrum orðum telur hann að það sé ómögulegt að hann hafi rangt fyrir sér,“ sagði Björn Leví Gunnarsson í þingræðu í gær.

Steingrímur J. Sigfússon brást við: Forseti kýs að svara þessu eingöngu með því að lesa upp 1. málslið 73. gr. þingskapa. Þar stendur: „Skylt er þingmanni að lúta valdi forseta í hvívetna er að því lýtur að gætt sé góðrar reglu.“

Tilefnið eru þessi orð  Steingríms þingforseta: „Þegar forsetar þeir sem eru á stóli hverju sinni sjá ástæðu til að gera athugasemdir við orðanotkun, orðfæri eða beina tilmælum til þingmanna um að gæta hófs í orðavali eru þær athugasemdir, þau tilmæli endanleg. Þeim verður ekki áfrýjað og þau eru ekki til umræðu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Mig langar til að ræða aðeins um geðþóttavald. Í síðustu viku sagði forseti vegna ræðu Jóns Þórs Ólafssonar í umræðu um störf þingsins,“ sagði Björn Leví.

„Nú getur vel verið að þau orð sem vísað var til hafi verið fram úr einhverju hófi. Vandamálið er bara að við höfum ekki hugmynd um hvaða orð það voru og hvort samhengið skipti máli eða ekki. Forseti vill nefnilega ekki að athugasemdir hans séu til umræðu. Forseti vill einfaldlega geta skammast í þingmönnum án þess að þurfa að útskýra hvað honum finnst athugavert við orðanotkun þingmanna sem alla jafna hafa mjög víðtækt tjáningarfrelsi úr ræðustól Alþingis. Þetta er ekki í fyrsta skipti og verður örugglega ekki í síðasta skipti sem forseti grípur til athugasemda af þessu tagi. Vegna þess að athugasemdir forseta eru ekki til umræðu lærir þing og þjóð aldrei hvers vegna forseti er alltaf að skipta sér svona af ræðum þingmanna.

Afleiðingin af því er að það gerist alltaf aftur og aftur og vindur upp á sig og verður verra og verra. Skýr dæmi um það eru ákvarðanir forseta um að sannleiksgildi ummæla skipti ekki máli í siðareglumálum, ákvörðun forseta um dagskrá hér í liðinni viku, þar sem þingfundi var snarlega slitið þegar upp komu eðlilegar spurningar um fundarhaldið í þinginu vegna samkomubanns, og ákvörðun um fyrirkomulag fyrirspurna um kostnað lögbundinna verkefna. Allt er þetta af því að forseti getur ekki viðurkennt þegar hann hefur rangt fyrir sér og vill ekki einu sinni ræða það þegar sá möguleiki er fyrir hendi.“

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: