Hefur legið á borði Bjarna í marga mánuði
Jón Steindór Valdimarsson á Alþingi: „Þann 25. apríl árið 2018 var samþykkt hér tillaga með því þjála nafni Tillaga til þingsályktunar um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Gekk sú tillaga út á það að ríkið setti sér stefnumörkun til að tryggja þessi markmið og enn fremur yrði skipaður sérstakur starfshópur sérfræðinga þar sem tengdir yrðu saman þeir aðilar sem best þekkja til og þekkja þau málefni sem þar eru undir. Þessa þingsályktunartillögu samþykktu 47 þingmenn, allir þingmenn sem voru viðstaddir atkvæðagreiðsluna
Fyrir tæpu ári átti ég orðastað við hæstvirtan fjármálaráðherra um málið og innti hann eftir því hvernig verkinu miðaði fram. Með leyfi forseta, sagði hæstv. fjármálaráðherra:
„Það sem er að frétta af málinu er að það er í vinnslu og ég var nú síðast með það í þessari viku á borði mínu og til úrlausnar.“
Mig langar því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort málið sé enn á borðshorni ráðherrans eða hvort einhver framvinda hafi orðið í málinu sem hann getur skýrt frá hér.“
„Þannig get ég greint þingmanninum frá því að við höfum verið að vinna að mörgum málum sem eru eðlisskyld því sem fjallað er um í ályktuninni. En það er hins vegar ekki enn komið að því að skipa sérstakan starfshóp enda álitamálið kannski það hvernig við ættum að láta slíkan starfshóp starfa samhliða stjórnsýslu sem vinnur einmitt að verkefnum af þessum toga. Það er kannski eitthvað sem við þurfum að ræða á vettvangi ríkisstjórnarinnar, hvernig við ættum að útfæra það,“ svaraði Bjarni nú.