Ég get ekki sagt, að ég bíði spenntur eftir næstu ríkisstjórn, því miklar líkur eru á að þar muni Panama-prinsarnir leiða saman hesta sína aftur.
Marinó G. Njálsson skrifaði á Facebook:
Kjörtímabilið er rúmlega hálfnað og rétt rúm tvö ár síðan stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar var birtur. Ég birti fyrir tveimur árum mína skoðun á ýmsum atriðum hans. Er hægt að nálgast þær skoðanir/umsagnir í nokkrum færslum frá þessum tíma og má nálgast þær allar með því að smella á fyrstu færsluna og fylgja síðan tenglum fyrir hinar sem á eftir fylgdu. Fyrstu færsluna er að finna hér: https://www.facebook.com/marino.g.njalsson/posts/10156100576009172
Eins og oft vill verða með stjórnarsáttmála, þá virðast þeir vera til skrauts. Fáu hefur verið hrint í framkvæmd og stundum verið gengið þvert gegn því sem lagt var upp með. Nú þegar ráðherrar hafa fylgt eftir ákvæðum í stjórnarsáttmálanum, þá rísa sumir þingmenn upp á afturlappirnar og mótmæla hástöfum. Greinilegt var, að þetta var bara texti á blaði og aldrei stóð til að gera neitt. Þetta á sérstaklega við um tvö atriði í stjórnarsáttmálunum og bæði snúa þau að umhverfisvernd. Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur augljóslega misskilið tilgang stjórnarsáttmálans og í staðinn fyrir að líta á hann sem fagurgala til að láta fólk halda að eitthvað ætti að gera, þá ákvað hann að hrinda tveimur mikilvægum málum í framkvæmd. Það hefur kallað á heilaga reiði nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Málin sem hér um ræðir eru stofnun hálendisþjóðgarðs og að friðlýsa svæði í verndarflokki rammaáætlunar, en vinna við hvorutveggja er hafin þrátt fyrir hávær mótmóli virkjunarsinna á þingi.
Ég fann nokkur atriði til viðbótar, sem hrint hefur verið í framkvæmd, t.d. hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega, lengingu á fæðingarorlofi, hækkun fjármagnstekjuskatts í 22% og, nei, alveg rétt, ég fann ekkert annað af þeim sem ég nefndi. Það er ekki búið að styrkja sjávarbyggðir, styðja betur við þá tekjulægstu, það misheppnaðist alveg að efla traust á stjórnmálum, nú aukið traust á íslenskum fjármálamarkaði fólst í því að komast á gráan lista, þjóðarsjóður er með enn óljósari tilgang en áður, gistináttaskattur/-gjald rennur enn til ríkisins, Listaháskólinn er enn dreifður um allt, Landhelgisgæslan er enn fjársvelt, langt er frá því að landsmenn hafi „jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um land allt“ og bráða- og barna- og unglingageðdeildir Landspítalans búa enn við fjármagnsskort.
Góð fyrirheit sem ekkert verður úr, er ein helsta ástæðan fyrir því hve illa gengur að efla trú fólks á stjórnmálum og stjórnvöldum. Þetta er eins og Jón Gnarr sagði um árið: „Ég lofa því að svíkja allt sem ég segist ætla að gera.“ (Hann orðaði þetta kannski ekki svona, en þetta er inntakið.)
En ríkisstjórnin hefur tvö ár í viðbót til að halda á fram að standa við eða standa ekki við stjórnarsáttmálann, ef hún lifir þá svo lengi. Ég trúi ekki öðru en að stórhluti stuðningsmanna VG séu búnir að snúa bakinu við flokknum og síðan sýnist mér sem Miðflokkurinn hafi náð til sín stórum hluta af afturhaldsliðinu sem var í Sjálfstæðisflokknum. Ég get ekki sagt, að ég bíði spenntur eftir næstu ríkisstjórn, því miklar líkur eru á að þar muni Panama-prinsarnir leiða saman hesta sína aftur.