„Ég bíð enn þá, komið á fimmta mánuð, eftir svörum við fyrirspurnum frá fjórum ráðherrum um sama efni, harla einfalt myndi maður ætla, um fjölgun starfsfólks og embættismanna í tíð ráðherra. Þetta er efni sem skiptir máli, t.d. vegna umræðunnar í dag, umræðunnar um fjármálaáætlun. Hvernig er ríkisstjórn Íslands að haga málum þegar kemur að útgjöldum, fjölgun starfsfólks, fjölgun embætta, bákninu?“
Þetta sagði Helga Vala Helgadóttir á Alþingi skömmu áður en þingið fór í sitt veglega páskafrí.
„Við vitum auðvitað að þau þurftu að fjölga ráðuneytum til að geðjast öllum eftir kosningar, gjörsamlega að óþörfu, en við þurfum líka að vita hvað það hefur kostað. Við fengum áætlun hæstvirts fjármálaráðherra en við vitum nú hvernig áætlanir ríkisstjórnarinnar eru almennt. Það er ekkert að marka þær. Þess vegna óska ég eftir að forseti beiti sér og krefji ráðherra svara. Það eru nærri því fimm mánuðir liðnir.“