Hefndir og hernaður
Guðlaugur Þór Þórðarson er spenntur fyrir hernaðaruppbyggingu í Helguvík sem og á Miðnesheiði. Er sagður vilja færa að lágmarki einn milljarð úr ríkissjóði til þeirra verka. Hann hefur ekki haft árangur sem erfiði. Meira að segja á Bjarni að hafa sagt nei. Sjáum hvað setur í glímunni í Valhöll.
Guðlaugur Þór vill víst loka „göngudeildinni“ í utanríkisráðuneytinu. Deildin er geymsla fyrir ofgnótt sendiherrar. Þeir eru einatt mun fleiri en sendiráðin. Í Mogga dagsins segir:
„Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands í Brussel, hefur verið kallaður heim, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Gunnar gagnrýni harðlega drög utanríkisráðherra um breytingar á skipun sendiherra.“
Allt bendir til að Guðlaugur Þór sé að hefna sín. Gunnar var hvass í gagnrýni á vilja ráðherrans og sagði tillögur hans líklegar til að veikja stöðu utanríkisþjónustunnar og hafa neikvæð áhrif til lengri tíma litið. ,,Það er illa rökstutt, ruglingslegt og mótsagnakennt, auk þess sem það kyndir undir tilefnislausa tortryggni í garð einnar starfsstéttar stjórnarráðsins,“ sagði Gunnar, sem lagði til að Guðlaugur Þór hætti við og þess í stað yrði ráðist í yfirgripsmeiri skoðun á starfsháttum utanríkisþjónustunnar, m.a. með hliðsjón af nútíma mannauðsstjórnunarsjónarmiðum.
Í Mogga dagsins segir: „Umræður munu hafa verið um að Gunnar færðist í aðra sendiherrastöðu, en talið var erfitt að flytja vegna kórónuveirufaraldursins. Strax eftir að Gunnar sendi inn afar gagnrýna umsögn um frumvarpsdrögin í samráðsgátt stjórnvalda var tilkynnt að hann ætti að flytja heim fyrir lok júní, að því er heimildir blaðsins herma, en engar skýringar voru gefnar á því að svo skammur tími skyldi vera gefinn og að þetta þyrfti að gera við núverandi aðstæður. Gunnar sagðist ekki geta tjáð sig um málið að svo stöddu, þegar hann var spurður um málið. Hann hefur starfað í utanríkisþjónustunni frá árinu 1984 og verið sendiherra í 30 ár.“