Leiðari Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður og fyrrum ráðherra, á eftir að bíta úr nálinni með að hafa sem utanríkisráðherra stutt aðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússum, vegna innrásar þeirra í Úkraínu.
Kaupfélagið í Skagafirði sættir sig ekki við framgöngu Gunnars Braga. Einkum og sér í lagi þar sem Rússar svöruðu fyrir sig og hættu að kaupa fisk og þeir hættu að kaupa lambakjöt, lambakjöt sem mikið er til af í Skagafirði og nærsveitum.
Eitt er að daðra við Evrópusambandið. Slíkt verður seint fyrirgefið. Verra er þegar við bætist að hafa stuðlað að því að ekki er lengur hægt að selja Rússum kjöt er meira en nóg komið. Gunnar Bragi skal gjalda fyrir með þingsæti sínu. Minna má það ekki vera.
Ásmundur Einar Daðason hefur samþykkt að fullkomna refsinguna. Hann verður væntanlega kjörinn í fyrsta sæti lista Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi. Þá dylst engum lengur eftir hvaða reglum skal farið. Þær reglur eru óskrifaðar en ákaflega skýrar.
Sigurjón M. Egilsson.