- Advertisement -

Hefðbundið loftslag í Hvíta húsinu

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir.

Sumt af því sem telst óvenjulegt í alþjóðakerfinu eru fastir liðir í Hvíta húsinu. Nú ber svo við að Donald Trump er ekki viss um hvort Bandaríkin verði áfram aðilar að Parísarsáttmálanum. Margir hafa af þessu miklar áhyggjur og eyða því óhemju orku í að ausa Trumpinn auri. Þegar málið er skoðað í samhengi kemur þó í ljós að Trump er að þessu leiti hefðbundinn forseti Bandaríkjanna.

Bandaríkin eru almennt ekkert sérlega áhugasöm um fulla aðild að alþjóðlegum sáttmálum. Það þýðir þó ekki endilega að Bandaríkin virði innihald slíkra sáttmála að vettugi. Bandaríkin hafa til að mynda ekki fullgilt Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna þó en virða þó almennt kjarnaatriði sáttmálans. Þá eru Bandaríkin eina ríki Sameinuðu þjóðanna sem ekki hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, án þess þó að hafa áform um að brjóta á réttindum barna.

Sumir fréttaskýrendur hafa því sagt að dragi Bandaríkin sig út úr samstarfi ríkja í loftslagsmálum hefði það fyrst og fremst diplómatískar afleiðingar fyrir Bandaríkin. Þau myndu skaða eigin trúverðugleika á alþjóðavettvangi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Diplómatískir taktar Hvíta hússins þessi misserin hljóða upp á aukið samstarf við önnur ríki meðal annars í öryggis og varnarmálum. Trump getur ekki gengið að samstarfi annarra ríkja í þjóðaröryggismálum sem vísu neiti hann að taka þátt í Parísarsamkomulaginu. Á þetta hefur Ban-Ki Moon bent (skv. PBS NewsHour).

Í þessu samhengi verður mér hugsað til þess að í leikskólanum lærði maður ungur að ekki þýddi að rífa dót af sessunautnum nema kannski ef honum var boðið eitthvað í staðinn. Þessa grundvallar diplómatík fyrsta skólastigsins ættu ráðamenn þjóða að vera búnir að tileinka sér.

Þess vegna ættu Íslendingar og aðrar þjóðir sem hafa staðfest sáttmálann að hafa meiri áhyggjur af því hvernig þær ætla að standa við eigin skuldbindingar. Í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ frá því í febrúar kemur til að mynda fram að mikið þarf að breytast ætli Ísland að standa við skuldbindingarnar.

Ef marka má skýrslu Hagfræðistofnunar er bjartsýnt, miðað við venjubundna þróun, að spá 33% aukningu útblásturs til ársins 2030 á Íslandi (sé miðað við upphafsárið 1990). En þó aðeins ef binding með uppgræðslu og skógrækt er tekin með í reikninginn. Mesta aukningin væri þá vegna umsvifa stóriðju.

Samvinna aðila með ólíka sérfræðiþekkingu og reynslu hefur oft á tíðum skilað aukinni skilvirkni og ódýrari lausnum. Það kemur því ekki á óvart að Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra segir skuldbindingarnar kalla á samstillt átak stjórnvalda, atvinnulífs, félagasamtaka og almennings.

Þó þægilegt geti verið á vordögum að horfa framhjá garðinum sínum og líta í staðinn á óræktina í garði nágrannans, breytir sú stundarfró sem það kann að veita ekki því verkefni sem framundan er. Orka er hvorki óþrjótandi í náttúrunni né í okkur sjálfum, notum hana í eigin garði.

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: