- Advertisement -

HEB: Tuggði steiktan lauk allan daginn

Heima er bezt:

Ekki fer alltaf saman auður og hamingja. Hér segir af Henriettu Howland Green, sem var aldrei kölluð annað en Hetty. Hún fæddist á New Bedford í Bandaríkjunum 1835 og dó í New York. Þrítug erfði hún um 10 milljónir dollara eftir föður sinn, Edward Mott Robinson, og frænku sína, Sylvíu Önnu Howland.

Hetty var langauðugasta kona Bandaríkjanna um sína daga, og svo fégráðug, nísk og slungin var hún á sviði fjármálanna, að minningin um auðsöfnun hennar lifir enn góðu lífi, enda hafa furðulegar frásagnir um hana birst á prenti.

Tekjur hennar voru miklar. Samt seldi hún morgunblaðið sitt, þegar hún hafði rennt augunum yfir það, var verr til fara, át lakari mat og svaf í lélegra rúmi en flestar verkakonur New York borgar. Hún átti hlutabréf í járnbrautum, en leyfði sér aldrei þann munað að ferðast í svefnvagni að næturlagi.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Sjálf var hún vön að matast á lélegum veitingastöðum og valdi sér þá venjulega ódýran baunarétt, smá ketuttlu og búðingsslettu fyrir fáein sent.

Það varð frægt, að eitt sinn bauð Hetty allmörgum vinum sínum til miðdegisverðar og áttu þeir að hitta hana í viðhafnarhóteli í Boston. Fólkið hélt, að aldrei þessu vant stæði mikið til. Karlmennirnir fóru í smóking og kvenfólkið í viðhafnarkjóla. En dýrðin varð skammvinn, því að ekki voru gestirnir fyrr komnir til hótels en sú gamla sagði þeim að elta sig, fór svo langa leið með þá fótgangandi og gaf þeim síðan eitthvert snarl á ódýrum greiðasölustað!

Sjálf var hún vön að matast á lélegum veitingastöðum og valdi sér þá venjulega ódýran baunarétt, smá ketuttlu og búðingsslettu fyrir fáein sent. Þegar Hetty var komin fast að áttræðu, spurði blaðamaður hana, hvernig hún færi að því að varðveita þá hestaheilsu, sem hún hefði haft um dagana. Kerla kvaðst neyta steikts hryggjarbita með brúnuðum kartöflum ásamt tebolla og mjólkursopa á hverjum morgni, en síðan sagðist hún tyggja steiktan lauk allan daginn til að drepa gerlana í ketinu og mjólkinni!

Þessi forríka kona dvaldist löngum í Wall Street, kauphallargötunni frægu í New York, til að hagræða eignum sínum. Hún var á sífelldum verði gagnvart skattayfirvöldunum. Gekk það svo langt, að hún þorði hvergi að eiga samastað í borginni, því að þá vissi hún, að sér myndi verða gert að greiða 720 þús. kr. skatt á ári. Þess vegna var hún á sífelldum flótta milli ódýrustu gistihúsanna, gekk þá undir ýmsum dulnefnum, klæddist tötrum og hafði svo lítinn farangur meðferðis, að tortryggnari forstöðukonur sumra gistiheimilanna þorðu ekki annað en láta hana borga húsaleiguna fyrirfram. Þessi feluleikur kerlingar var svo magnaður, að vinir hennar misstu oft sjónar á henni og höfðu stundum enga hugmynd um, hvað af henni hefði orðið.

Hetty var síhrædd um, að bófarnir í New York myndu falsa nafn hennar á ávísanir. Þess vegna forðaðist hún eftir mætti að skrifa nafn sitt. Hún safnaði því öllum umslögum utan af bréfum, sem hún fékk, og skrifaði allar orðsendingar sínar aftan á þau. Þannig komst hún hjá því að láta sjást, hvernig hún páraði nafn sitt!

Um hana hefur verið skrifuð bók, sem heitir: Konan, sem elskaði peninga. Í því sambandi má geta þess, að hún átti ofboðslega innstæðu í frægum banka í New York. En fyrir bragðið gerði hún sig svo heimakomna þar, að hún fór þangað með kistur og ferðatöskur, troðfullar af fatagörmum og alls konar drasli og smellti þessu inn í geymsluherbergi bankans. Svo langt gekk þessi átroðningur, að bankinn varð að geyma húsgögn kerlingar, er hún hætti að eiga fastan samastað í borginni. Og ekki nóg með það, heldur neyddi Hetty bankann til að geyma gamlan fjórhjólaðan hestvagn, sem hún átti!

Saga þessarar forríku konu er lítið annað en frásögur um furðulegustu atburði. Árið 1867 giftist hún Edward Green, auðugum te- og silkiinnflytjanda frá Vermont. Á brúðkaupsdegi sínum undirrituðu þau samning um, að fjárhagslega skyldu þau verða hvort öðru óháð. Eiginmaðurinn gleymdist fljótt, en hins vegar gerði frúin brátt sigurstranglega innrás í kauphöllina í Wali Street, fyrst allra kvenna, og reyndist þar fyllilega jafnoki auðjöfranna, er drottnuðu í þeim „helgu sölum“.

Hetty var alltaf í sama kjólnum. Hann hafði upphaflega verið svartur, en skipti um lit, varð fyrst brúnn og síðan grænn af elli, en honum var ekki fleygt. 

Eitt fyrsta afrek hennar í kauphöllinni var að gera heldur en ekki hagstæð kaup á hlutabréfum i járnbrautum. Og brátt tóku peningar að flæða til hennar í stríðum straumum.

Hetty villtist einu sinni i stóru verslunarhúsi. Einn af deildarstjórum þess vakti þá athygli hennar á því, að höfuðslæða hennar væri gauðrifin og sagði í gamni, að ef hún tímdi ekki að kaupa sér nýja, skyldi hann gefa henni fallega slæðu.

„Er það satt?“ sagði Hetty, barnslega glöð. „En hvað það væri fallega gert af yður!“

Maðurinn hélt, að gamla konan hefði sagt þetta í gamni, en henni var full alvara, og verslunin varð að gefa henni slæðuna. Þegar búið var að binda hana um stráhattsgarm kerlingar, sagði hún:

„Þakka yður kærlega fyrir. Slæðan er ljómandi falleg. En ekki vænti ég, að þið eigið pils, sem ég gæti fengið með afslætti?“

Hún fékk snoturt pils fyrir hálfan dollara og staðgreiddi það. En eftir þetta var hún vön að segja vinum sínum, að í þessari verslun fengjust góðar vörur við vægu verði!

Hetty var alltaf í sama kjólnum. Hann hafði upphaflega verið svartur, en skipti um lit, varð fyrst brúnn og síðan grænn af elli, en honum var ekki fleygt. Regnhlíf og taska kerlingar voru jafngamlar kjólnum, og í töskunni geymdi hún beinakex, sem hún hafði keypt í lausri vigt. Hún maulaði það, er hún varð svöng og sagði, að það væri ódýrara en bakkelsið í gildaskálum New York borgar!

Árið 1916 fékk gamla konan hjartaslag eftir ákaft rifrildi við eina af eldabuskum vinkonu sinnar. Það dró hana til dauða. Hún lá banaleguna á heimili sonar síns í New York. Hann tók hjúkrunarkonunni vara fyrir að koma hvítklæddar inn til móður sinnar, því að ef hún sæi, að þær væru hjúkrunarkonur, en ekki réttar og sléttar vinnukonur, myndi hún deyja af tilhugsuninni um kostnaðinn af heimsóknum þeirra.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: