Aum er staða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Það er ekki nóg með að flokkurinn hennar nálgast dauðalínuna, hægt og örugglega. Hitt er verra að hún nýtur ekki stuðnings innan eigin ríkisstjórnar til að gera, eða leggja til, breytingar á stjórnarskránni.
Hagsmunir margra eru þeir að ekki verði hróflað við þeim hlutum stjórnarskrárinnar sem þrengir að afkomu þeirra. Þar fer fremst útgerðin. Þar er barist. Vopn útgerðarinnar eru tvö; Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn. Svo einkennilegt sem það er óttast Sjálfstæðisflokkurinn Moggann, og útgerðina.
Staða Katrínar er henni stórhættuleg. Svo aum að hún þarf að leggja fram þingmannafrumvarp um stjórnarskrárbreytingar. Samstarfsflokkarnir báðir hafa skellt á hana hurðum. Til að forðast fullkomna sneypuför verður Katrín, forsætisráðherra lýðveldisins, að treysta á stjórnarandstöðuna. Til að bjarga eigin pólitísku lífi.
Þar er ekki á öruggan að róa. Hætt er við að Píratar, sem dæmi, fallist seint á málamiðlunartillögur Katrínar. Leiðangur Katrínar verður háskaför og óvíst hvernig fer. Árum saman hefur Sjálfstæðisflokkurinn barst gegn breytingum og sagt að ekki mega breyta stjórnarskránni nema með breiðri sátt.
„Hin breiða sátt snýst ekki um þjóðarvilja heldur vilja Sjálfstæðisflokksins,“ segir Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu í Moggagrein í dag. Það eru orð að sönnu.
Nú er vafinn sá, hvernig fer fyrir Katrínu? Missir hún fótanna vegna andstöðu innan eigin ríkisstjórnar? Já, það er bara líklegt.
-sme