„Við erum núna að fara að henda okkur í atkvæðagreiðslur en á atkvæðagreiðsluskjalinu er hvergi tillaga frá háttvirtri efnahags- og viðskiptanefnd um að framlengja undanþágur á tollum á úkraínskar kjúklingabringur. Ekki bara táknrænn stuðningur heldur mikilvægur stuðningur til þess að halda hjólum atvinnulífsins í Úkraínu gangandi. Þeir sem koma í veg fyrir það að þingið geti tekið afstöðu til þessa máls, því að við vitum afstöðu ráðherra, bæði forsætisráðherra, utanríkisráðherra og fleiri ráðherra að þau vilji sjá þetta inni, þeir sem eru að koma í veg fyrir að við getum greitt atkvæði um þetta eru háttvirtir þingmenn Steinunn Þóra Árnadóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Teitur Björn Einarsson. Þau koma í veg fyrir að við getum framlengt þessa undanþágu. Þetta er ekki gert í mínu nafni. Þetta er ekki gert nafni í Viðreisnar. Þess vegna finnst mér miður að við skulum fara núna inn í síðasta dag þingsins á þessum vetri án þess að fá þetta tækifæri og láta meiri hluta þingsins tjá raunverulegan vilja sinn. Það er verið að koma í veg fyrir að við getum greitt atkvæði um þetta mál,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Formaður nefndarinnar og verðandi ráðherra, Guðrún Hafsteinsdottir, brást við orðum Þorgerðar Katrínar:
„Lágkúran verður varla meiri en þetta, að hingað mæti háttvirtur þingmaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, og nafngreinir hér þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd og telur þá vera á móti því að aðstoða Úkraínu og fólk í neyð. Mér finnst þetta lágkúra. Hér hefur margoft verið tekið fram og ég held að allir þingmenn séu sammála um það að við viljum styðja við Úkraínu af öllum okkar mætti. Það lá ljóst fyrir að það var ekki meiri hluti fyrir því í nefndinni að framlengja þetta úrræði. Ég tel líka að þetta mál hafi verið á forræði ríkisstjórnarinnar. Þetta snertir mörg ráðuneyti. Ég get nefnt forsætis-, fjármála-, utanríkis- og matvælaráðuneytið og ég tala hér fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar, að fólki hefði verið í lófa lagið að leggja hér fram frumvarp og þetta hefði verið rætt í ríkisstjórn.“
Helga Vala Helgadóttir greip boltann á lofti:
„Guðrún Hafsteinsdóttir spurði hér hvort Viðreisn styddi bændur. Snýst þetta um það í huga þingmannsins, þ.e. ef veitt er áframhaldandi ívilnun fyrir Úkraínu og innflutning á kjöti með því að gefa eftir tolla á þessa einu afurð, kjúklingakjöt, þá sé maður á móti bændum á Íslandi? Styðja þá ráðherrarnir, hæstvirtur umhverfisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, og hæstvirtur utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem sendi ákall til samflokkssystur sinnar í gær um að klára málið og til Alþingis alls, styðja þau þá ekki bændur á Íslandi? Er það þannig? Hér erum við að tala um pínulitla aðgerð til þess að styðja við sjálfsbjargarviðleitni þjóðar í landi sem hefur verið ráðist inn í. Ég verð að segja að ég er ekki stolt af því hvernig formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur ákveðið að leyfa nefndinni ekki að taka afstöðu til þessa máls. Mér finnst það snautlegt.“