Listi Sósíalista í Norðausturkjördæmi:
„Það er kominn tími á róttæka vinstristefnu sem hefur skýra
framtíðarsýn og hafnar stöðugum málamiðlunum til hægri. Málamiðlanirnar hafa
engu skilað nema afturför, síauknum ójöfnuði og auðsöfnun lítils hluta
þjóðarinnar. Skattahækkanir á bótaþega og almennt launafólk, sligandi húsnæðis-
og leigumarkaður og níðþungur fjármagnskostnaður og fjármálakerfi leggja þungar
byrðar á þjóðina en soga hins vegar gríðarlegan arð til fjármagnseigenda og
stórfyrirtækja,“ segir Haraldur Ingi Haraldsson sem skipar efsta sæti
Sósíalistaflokksins í Norðausturkjördæmi.
Listanum er stillt upp af slembivöldum hópi meðal félaga flokksins sem unnið
hefur hörðum höndum að því að endurspegla sem skýrast vilja grasrótar flokksins
og teljum við það skila mun betri árangri en hefðbundnar leiðir við uppröðun á
lista sem oftar en ekki gefa skakka mynd.
Haraldur Ingi varar við að fram undan sé grófari aðgerðir. „Í farvatni
ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og þeirra flokka sem hann kallar til fylgis við
sig eru stórkarlalegar fyrirætlanir um enn harðari hægri stefnu. Búið er að
setja lög sem heimila stórfelldan einkarekstur í vegakerfinu með vegatollum.
Fjársvelt heilbrigðiskerfi er eins og þroskaður ávöxtur reiðubúið að falla í
körfu einkavæðingarinnar og bankarnir eru matreiddir fyrir aðra einkavæðingu og
braskarar sleikja út um af tilhlökkun út af öllum arðgreiðslunum sem bíða
handan við hornið.“
Sósíalistaflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem tekur skýra afstöðu gegn
þessu efnahagskerfi,“ segir Haraldur Ingi. „Fyrir landið og Norðausturkjördæmi
skiptir það sköpum að farið sé að leita félagslegra lausna á þeim vandamálum
sem blasa við og að hafin sé uppbygging á forsendum almannahags ekki
sérhagsmuna.“
„Ég vil breytingar á samfélaginu,“ segir Margrét Pétursdóttir verkakona sem
skipar annað sæti listans. „Breytingar sem ég hélt að við fengjum eftir
Búsáhaldabyltinguna en urðu ekki. Þar má telja nýja stjórnarskrá sem dæmi. Ég
hef trú á þessu framboði Sósíalistaflokksins sem hefur fengið að gerjast í
nokkur ár og ég tel að það sé farsælt fyrir okkur öll að teyma þetta þjóðfélag
úr nýfrjálshyggjunni yfir í sósíalismann. Við verðum að lyfta upp þeim
þjóðfélagshópum sem hafa liðið fyrir nýfrjálshyggju, eins og öll börn, öryrkja
og aldraða. Það dugar ekkert miðjumoð í baráttunni við hatursfullt öfga
kapítal.“
Guðrún Þórsdóttir sem er í þriðja sæti listans á sér ákveðið hugðarefni sem hún
hefur brennandi áhuga og ástríðu fyrir því að bæta. „Það eru aðstæður ungmenna
sem eru á einhvern hátt jaðarsett í samfélaginu og eiga við ýmsan íþyngjandi
vanda að etja eins og fátækt, fíkn eða geðræn vandamál,“ segir Guðrún. „Það þarf
að stórbæta aðstæður og möguleikar slíkra ungmenna til að fá bót meina sinna og
hafa möguleika til að taka virkan þátt í samfélaginu og byggja sig upp.“
Samhliða listanum hafa Sósíalistar birt tilboð til kjósenda
í Norðausturkjördæmi, BYGGJUM UPP BYGGÐIRNAR, INNVIÐI, HÚSNÆÐI OG SAMGÖNGUR,
sjá hér: https://sosialistaflokkurinn.is/2021/08/10/tilbod-sosialista-til-kjosenda-i-nordausturkjordaemi/
Í fyrsta sæti er Haraldur Ingi Haraldsson, sem starfar sem
verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ. Haraldur Ingi hefur víðtæka reynslu af
atvinnulífinu, starfað sem kennari, leiðsögumaður, við kræklingarækt, við
safnastörf og fleira. Haraldur Ingi hefur lagt stund á listir og sífellt
sjálfsnám um vinstri sinnuð stjórnmál, sagnfræði og hagfræði. Niðurstaða þess
náms fyrir honum er að félagslegt og efnahagslegt óréttlæti fer hraðvaxandi og
ástæða þess er samfélagskerfi sem leggur fyrst og fremst áherslu á skyndigróða
með sem minnstum tilkostnaði og sem minnsta ábyrgð og veitir ávinningnum að
mestu leiti til eigenda stórfyrirtækja, hluthafa og stjórnenda og
fjármagnseigenda. Þess vegna styður Haraldur Ingi sósíalisma sem hafnar
núverandi skipulagi fjármálakapítalismans og setur í staðinn fram jákvæða og
uppbyggjandi framtíðarsýn með lausnum fyrir fjöldann ekki þá fáu. Haraldur Ingi
hefur tekið virkan þátt í félagsstarfi Sósíalistaflokksins og átt sæti í
félagastjórn og situr nú í framkvæmdastjórn Flokksins
Í öðru sæti er Margrét Pétursdóttir, utanskólamenntuð
verkakona sem hefur unnið með börnum og gamalmennum og aldurshópum þar á milli.
Margrét hefur unnið margvísleg sjálfboðaliðastörf og verið með fólki á verstu
og bestu stundum lífsins og samsamað sig með flestum þeirra. Hún er róttækur
aktivisti í umhverfismálum og félagi í náttúruverndarsamtökum og hefur starfað
með þeim í aktivisma. Margrét er sósíalískur femínisti og vakti athygli á
Borgarafundi í Háskólabíó og þegar hún klæddi styttuna af Jóni Sigurðssyni í bleik
peysuföt til að beina spjótum að Neyðarstjórn kvenna sem starfaði í hruninu.
Margrét aðhyllist húmanisma og vill að mannréttindastofnun verði sett á
laggirnar sem fyrst af ríkisvaldinu.
Í þriðja sæti er Guðrún Þórsdóttir, menntuð í myndlist og menningarstjórnun.
Hún hefur starfað við menningu og listir frá því hún var miðatakari í
Kjallaraleikhúsinu 13 og 14 ára gömul. Fjölbreytt menningarlíf og listir eru
henni hugleikin. Guðrún þekkir götur borgarinnar og var ein af ærslabelgjunum í
miðbæ Reykjavíkur á áttunda áratugnum og þekkir götuslaginn vel. Síðustu ár
hefur hún unnið með ungmennum á Akureyri með breiðan vanda, formgert samstarf
13 stofnanna sem öll hafa snertiflöt við jaðarsett ungmenni, ungmenni með
fíknivanda, ungmenni með geðrænar áskoranir og ungmenni sem alist hafa upp í
fátækt. Guðrúnu er hugleikið að hlúa að og undirbúa fólkið okkar sem er jú
framtíðin.
Í fjórða sæti er Þorsteinn Bergsson, dýraeftirlitsmaður og sjálfstætt
starfandi svæðisleiðsögumaður og þýðandi. Þorsteinn býr nú með fjölskyldu sinni
á Egilsstöðum en var áður sauðfjárbóndi í Hjaltastaðaþinghá um árabil.
Þorsteinn er vinstrimaður af öllu hjarta og eignarhald á landi og fyrirtækjum
sem telja má til nauðsynlegra innviða er honum hugleikið. Hann telur brýnt að
breyta sem fyrst samkeppnislögum og öðru regluverki sem hindrar opinberan
rekstur. Ríki og sveitarfélög þurfa að grípa hraustlega inn í húsnæðismál og
tryggja fólki aðgang að leiguhúsnæði á mannsæmandi kjörum. Fjármálakerfinu þarf
að gera ljóst að það á að styðja við fjölskyldur og fyrirtæki í landinu en ekki
sjúga úr þeim þróttinn.
Í fimmta sæti er Unnur María Máney Bergsveinsdóttir, sirkuslistakona og
sagnfræðingur, búsett á Ólafsfirði. Hún hefur starfað bæði sjálfstætt og sem
launþegi á íslenskum vinnumarkaði frá því um miðjan tíunda áratuginn.
Pólitískar áherslur Unnar Maríu eru jöfnun tækifæra allra landsmanna hvað
varðar aðgengi að menntun, menningu, heilsugæslu og flutningsleiðum. Hún hefur
mikinn áhuga á friðar- og afvopnunarmálum og sat lengi í miðstjórn Samtaka
hernaðarandstæðinga.
Í sjötta sæti er Auður Traustadóttir heilsunuddari og sjúkraliði. Hún
hefur verið meðlimur í Sósíalistaflokknum frá upphafi og starfað þar af krafti
meðal annars í málefnahópum. Auður á þrjú börn og átta barnabörn. Hennar helstu
pólitísku hugðarefni eru heilbrigðismál og bætt staða öryrkja og aldraðra.
Í sjöunda sæti er Rúnar Freyr Júlíusson, póstberi og þjálfari sem
stundar nám í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Rúnar hefur starfað með
Sósíalistaflokknum frá því hann gekk í flokkinn í vor og situr nú í
félagastjórn. Rúnar á ættir að rekja til Austfjarða og Eyjafjarðar en ólst að
miklu leyti upp í Hrísey. Hann hefur starfað bæði í verslunum og sem
iðnaðarmaður. Frá því að Rúnar var í barnaskóla hefur hann skipulagt mótmæli og
safnanir fyrir málstaði sem honum er annt um. Rúnar hefur alla tíð verið
vinstri maður inn að beini og varð að sönnum sósíalista eftir því sem hann
stálpaðist. Sem ungum hinsegin einstaklingi er Rúnari sérstaklega annt um
málefni hinsegin fólks og ungmenna, en hans helsta ástríða er fyrir lýðræði á
vinnustöðum og stöðu brothættra byggða.
Listi Sósíalistaflokks Íslands í Norðausturkjördæmi:
1. Haraldur Ingi Haraldsson, verkefnisstjóri
2. Margrét Pétursdóttir, verkakona
3. Guðrún Þórsdóttir, menningarstjóri og ráðgjafi
4. Þorsteinn Bergsson, bóndi
5. Unnur María Máney Bergsveinsdóttir, sirkuslistakona og sagnfræðingur
6. Auður Traustadóttir, sjúkraliði
7. Rúnar Freyr Júlíusson, námsmaður
8. Karolina Sigurðardóttir, verkakona
9. Bergrún Andradóttir, námsmaður
10. Brynja Siguróladóttir, öryrki
11. Stefán L. Rögnvaldsson, bóndi og raunsæisskáld
12. Kolbeinn Agnarsson, sjómaður
13. Halldóra Hafdísardóttir, myndlistarmaður
14. Arinbjörn Árnason, fv. bóndi og bifreiðarstjóri
15. Ari Sigurjónsson, sjómaður
16. Árni Daníel Júlíusson, sagnfræðingur
17. Michal Polacek, lögfræðingur
18. Katrín María Ipaz, þjónn
19. Skúli Skúlason, leiðbeinandi
20. Jóhann Axelsson, prófesssor emeritus