Fréttir

Hannes Þór Halldórsson hvergi nærri hættur: Mun verja fyrir Víking

By Ritstjórn

June 19, 2022

Fyrrverandi landsliðsmarkvörðurinn og kvikmyndaleikstjórinn Hannes Þór Halldórsson hefur ekki lagt hanskana á hilluna eins og margir bjuggust við.

Hann lék með Val síðustu árin, en varð samningslaus fyrir þetta tímabil.

Nú hefur Hannes Þór tekið hanskana fram að nýju; búinn að skrifa undir skammtímasamning við Íslands- og bikarmeistara.

Víkingar voru í vandræðum vegna meiðsla markvarðar liðsins, Ingvars Jónssonar.

Eftir brösuga byrjun eru Víkingar komnir í gang og farnir að raða inn sigrunum; Hannes Þór á án efa eftir að hjálpa liðinu á næstunni á meðan Ingvar jafnar sig.

Víkingar eiga næst leik gegn Levadia Tallin í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á þriðjudag, og verður spilað í Víkinni.

Þar mun reynsla Hannesar Þórs eflaust nýtast liðinu, enda á kappinn að baki 77 landsleiki fyrir A-landslið Íslands, og er af mörgum talinn besti markvörður sem Íslendingar hafa eignast.