Samfélag Hönnu Birnu Kristjánsdóttir var hótað lífláti þegar Lekamálið stóð sem hæst. Hanna Birna var í viðtali við Sigurjón M. Egilsson, í beinni útsendingu í ágúst árið 2014. Þar barst talið að hótunum í hennar garð.
Hefur þú fengið alvarlega morðhótanir?
„Já.“
Sem þú hefur tekið mark á?
„Já.“
Hefur þú þurft að auka gæslu um þig?
„Já.“
Eru með lífvörð?
„Nei.“
„Mér var hótað lífláti, ég var þá að skreyta jólatréð með börnunum mínum og þetta tekur fólk alvarlega. Þetta er mál sem rætt er við börnin, við fjölskylduna og það þarf að viðhafa ákveðnar verklagsreglur vegna þess.“
Þegar Hanna Birna var spurð hvort þetta hafi orðið til þess hvort hún eigi að halda áfram í stjórnmálum, sagði hún:
„Þegar setið er heima á kvöldin og fjölskyldan ræðir hvort eða hvernig börnin eigi að opna útidyrahurðina og hvort eða hvernig við eigum að ferðast milli staða, út af svona máli, velti ég fyrir mér hvað ég er að leggja á þá sem mér þykir vænst um.“
„Ég veit að stjórnmál eru erfið. Þetta er ekki fyrsti stormurinn sem ég hef lent í og örugglega ekki sá síðasti. Þetta fylgir starfinu,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, þá innanríksiráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtalinu.
Hanna Birna sagðist þá ekki hafa hugsað að segja af sér ráðherraembætti.
„Ég hugsa til þess að ég er kona og ég hef mikinn metnað fyrir því að konur taki þátt í stjórnmálum, líkt og karlar. Mér finnst margt í þessari orðræðu og hvernig er komið fram í íslenskum stjórnmálum á síðustu árum bera þess merki að þetta sé erfiðara fyrir konur en karla. Ég vil ekki vera sú kona sem lætur undan slíkum ómaklegum, ósanngjörnum og ótrúlega óréttlátum aðdróttunum um að ég hafi gert eitthvað rangt. Mér finnst ekki að ég eigi að gefast upp fyrir þessu.“
-sme