- Advertisement -

Hann var svolítið ólmur

Það eru rúm fjörutíu ár frá því að Vilmundur heitinn Gylfason var fyrst í framboði til Alþingis. Fyrirsögnin er sótt í viðtal, við Guðrúnu Helgadóttur, sem birtist í Mannlífi árið 2008. Greinin sem hér fer á eftir er einnig sótt í sama blað. Þá var þess minnst að aldarfjórðungur var frá andláti Vilmundar.

Innkoma Vilmundar í stjórnmálin gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Örvænting ríkti í Alþýðuflokknum á vormánuðum 1974 en það gat oltið á örfáum atkvæðum hvort flokkurinn hyrfi af þingi. Útlit var fyrir að flokkurinn næði annað hvort fjórum til sex  þingmönnum eða engum, vegna reglna um uppbótaþingmenn. Því var að duga eða drepast, finna varð nýtt fólk til að leiða lista flokksins víða um land. Vitað var um áhuga Sighvats Björgvinssonar, þá ritstjóra Alþýðublaðisins, á að fara fram í fyrsta sæti fyrir flokkinn í Vestfjarðakjördæmi. Faðir hans, Björgvin Sighvatsson, var einn öflugasti flokksmaðurinn þar vestra og ljóst að hann vann hörðum höndum við að afla syninum stuðnings en hafði ekki alls staðar erindi sem erfiði.

Gylfi Þ. Gíslason, formaður Alþýðuflokksins og faðir Vilmundar, lagði Vestfirði undir fót til að leita foringjaefnis fyrir flokkinn og í þeirri ferð kom fram sú hugmynd að hann ræddi við Vilmund, son sinn, um að fara fram í kjördæminu. Efaðist Gylfi um að Vilmundur vildi fram en talaði engu að síður við hann. Reyndist Vilmundur hreint ekki andsnúinn hugmyndinni og sló til. Vilmundur taldi öruggt að hann skipaði fyrsta sæti listans sem yrði uppbótarþingsæti kæmist Gylfi inn í Reykjavík. Hélt hann vestur á fund kjördæmisráðsins og það var fyrst á þeim fundi að í ljós kom að honum var ætlað annað sæti listans en Sighvati Björgvinssyni það fyrsta. Tvennum sögum fer af því hvernig þetta bar að en nokkur þykkja var í Vilmundi eftir þennan fund. Engu að síður ákvað hann að starfa áfram með flokknum og skrautleg kosningabarátta var framundan.

Kosningabaráttan

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þeir Sighvatur Björgvinsson héldu af stað í kosningaferðalag um kjördæmið, að þeir héldu að minnsta kosti. Komu þeir við á bæ einum í Gilsfirði og tók bóndinn á bænum þeim vel. Eyddu þeir þar drjúgum tíma í að sannfæra bóndann og fjölskyldu hans um ágæti sitt og flokksins áður en bóndinn benti þeim á að þeir væru staddir í röngu kjördæmi. Þarna hafði landafræðin eitthvað brugðist frambjóðendunum sem staddir voru á síðasta bænum í Vesturlandskjördæmi en ekki fyrsta bæ í Vestfjarðakjördæmi.

Áður en kosningabaráttunni lauk munaði minnstu að Vilmundur drægi framboð sitt til baka. Ástæðan var sú að honum bárust til eyrna sögur um að ekki væru allir kratar fyrir vestan ánægðir með framboð hans. Fóru kjaftasögur af stað, meðal annars ein á Ísafirði, um að sést hefði til Vilmundar kófdrukkins um miðja nótt eftir kosningafund í bænum en ljóst var að hér voru helber ósannindi á ferð. Tók Vilmundur þessu illa og íhugaði alvarlega að hætta þátttöku. Fór þó svo að hann var áfram í framboði en hann tók ekki þátt í kosningabaráttunni á lokasprettinum.

Úreltar og forhertar hagsmunaklíkur

Stjórnmálabarátta Vilmundar næstu árin snerist mikið um baráttu gegn fjórflokkunum og því kerfi sem hann sagði pólitískt  og siðferðilega án ábyrgðar, samtryggt og lokað almenningi. Sagði Vilmundur meginágreining í íslenskum stjórnmálum ekki vera á milli gömlu flokkanna heldur milli flokkakerfisins annars vegar og þeirra sem vildu lina tök þess hins vegar. Hvatti hann alla til að fylgjast með málum í bankaráðum ríkisbankanna, fjárveitinganefnd Alþingis, Útvarpsráði og víðar þar sem hann sagði menn samankomna til að skipta kökum á milli gæðinga sinna. Sagði hann meðal annars í ræðu á eldhúsdegi vorið 1983:

Það verður að leita dýpri skýringa á mistökum í stjórnarfari og efnahagslífi heldur en í háttvirtum þingmanni, Eggert Haukdal, sem fjórflokkakerfið hefur gert að skálkaskjóli ógæfu sinnar. Stjórnmálaflokkarnir sjálfir eru þröngar valdastofnanir sem standa ekki lengur fyrir stjórnmálaskoðanir heldur fyrst og fremst fyrir hagsmunavörslu og þessa hagsmuni verja þeir af oddi og egg. Þeir eru stofnanir en ekki hreyfingar. Ég spyr og hugsi menn sig nú vandlega um: Hver er munurinn á stjórnmálaskoðun hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar og Guðmundar J. Guðmundssonar? Ég hef starfað hér í fjögur ár og ég svara: Enginn.

Hugmyndir Vilmundar voru róttækar og settar fram af algeru virðingarleysi við stofnanir á borð við flokka, gilti þar einu hvort um var að ræða Alþýðuflokkinn eða aðra flokka. Ritaði hann meðal annars í grein í Alþýðublaðið í júní 1976 um aðkomu stjórnmálaflokkanna að bankakerfinu:

Alþýðuflokkurinn er síst undantekning í þessu ástandi, þar er hópur aðstöðubraskara sem komist hefur upp með að setja of mikinn lit á starf og andlit flokksins á síðustu árum. En það breytist vonandi til batnaðar.

Síðar í greininni ritar Vilmundur:

Auðvitað er til dæmis ekki hægt að líta framhjá því að fjáröflun stjórnmálaflokka – allra stjórnmálaflokka fer fram í skúmaskotum, sem í rauninni fæstir vita hver eru.

Í áðurnefndri ræðu á eldhúsdegi vorið 1983 sagði Vilmundur meðal annars:

Hæstvirtir alþingismenn, sem margir hverjir hafa þann meginstarfa að sitja í sjóðum, nefndum og ráðum ríkisins og útdeila þaðan fjármagni og greiða án sjáanlegs ágreinings á milli flokka og fylkinga, eru nú allt í einu uppteknir á daginn og helst á nóttunni líka við að setja lög. Við þessar aðstæður er lagavinnan auðvitað hroðvirknisleg og í ólagi, en það skiptir þó ekki meginmáli. Fjórflokkarnir eru að fara í kosningar og að kosningum loknum ætla þeir ekki fyrst og fremst að setja lög, hvorki á daginn né nóttunni, heldur skipta upp á nýtt stjórnum, nefndum og ráðum á milli flokkanna í ljósi kosningaúrslita og halda síðan áfram með nákvæmlega sama hætti og verið hefur.

 

Óli Jó

Vilmundur Gylfason gerði í byrjun árs 1976 harða hríð að dómsmálaráðherra, Ólafi Jóhannessyni. Tilefnið var rannsókn á hvarfi tveggja manna, Geirfinns Einarssonar og Guðmundar Einarssonar. Áður hafði Vilmundur fjallað þónokkuð um rannsókn á umfangsmiklu fjársvikamáli tengdu Klúbbnum sem hann sagði tengjast þessu tiltekna mannshvarfsmáli.

Vilmundur ritaði greinar tengdar þessu máli og sagði meðal annars í grein í Vísi í janúar 1976.

Ég hef aldrei eitt augnablik dregið í efa persónulegan heiðarleik og ráðdeild Ólafs Jóhannessonar, dómsmálaráðherra. En hann er innlyksa í morknu réttarkerfi, hann virðist hafa misbeitt valdi sínu – og ég hef varpað fram þeirri hugsanlegu hugmynd að hann sé umkringdur af óheppilegum ráðgjöfum, svo óheppilegum, að þar komist ekkert súrefni að. Að það sé hans ógæfa. En þetta eru auðvitað einasta getsakir.

Svaraði Ólafur Jóhannesson því svo til að hér væri ekki við Vilmund sjálfan að sakast heldur „Vísismafíuna“ sem hann kallaði svo. Vilmund sagði hann vera stórt núll sem eitt og sér hefði ekkert gildi. Hann væri verkfæri í annarra höndum.

Slagurinn um Alþýðublaðið

Það var ljóst að ekki var öllum vel við útgáfu Alþýðublaðsins og var Vilmundur, sjálfur ritstjórinn sumrin 1976 til 1981, meðal annars á því að gæti blaðið ekki borið sig bæri að leggja það niður. Hafði blaðið fengið styrk til útgáfu frá systurflokkum Alþýðuflokksins á Norðurlöndum og var það gagnrýnt harkalega, meðal annars af Vilmundi.

Þetta sumar, sumarið 1981, var eitt örlagaríkasta sumar í ævi Vilmundar. Ekki eingöngu vegna pólitískra umróta heldur ekki síður vegna persónulegra tíðinda en þetta sumar eignuðust þau Valgerður soninn Baldur Hrafn. Biðin eftir syninum var þrungin spennu, ekki síst vegna þess að þarna höfðu þau misst þrjú börn sín, eitt í brunanum á Ráðherrabústaðnum og tvö í vöggu.

Hvað Alþýðublaðsumrótið varðaði þá var ekki öllum ljóst um hvað deilan snerist. Sjálfur vildi Vilmundur meina að deilan hafi snúist um baráttu sína fyrir aðskilnaði Alþýðuflokksins og verkalýðshreyfingarinnar. Aðrir töldu deiluna hefjast á frekar misheppnuðu gríni sem gefið var út í harla óvenjulegu tölublaði Alþýðublaðsins í júlímánuði þetta ár. Á þessum tíma var Jón Baldvin Hannibalsson ritstjóri blaðsins og Vilmundur fenginn til starfa yfir sumarið. Fékk Vilmundur samþykki Kjartans Jóhannssonar, formanns flokksins, til að taka fyrir verkalýðsmál og skort á lýðræðislegum vinnubrögðum innan verkalýðshreyfingarinnar. Ekki voru þeir sammála um alla hluti þó að formaðurinn væri sammála því að umræða um þessa hluti væri bara af hinu góða. Jón ritstjóri fór í sumarfrí en var eftir sem áður ábyrgðarmaður blaðsins og Vilmundur tók við ritstjórnarstólnum. Tók hann nú til við að rita langa og stranga leiðara og greinar um ónýta verkalýðshreyfingu og sök hennar á bágum kjörum verslunar og verkafólks. Var hann sérstaklega harðorður í garð Verslunarmannafélags Reykjavíkur og talaði fjálglega um „fátæka fólkið í VR“. Skemmst er frá því að segja að margir kvörtuðu sáran undan skrifum Vilmundar. Sagðist, meðal annarra, Jóhanna Sigurðardóttir, samflokkskona Vilmundar og nú félagsmálaráðherra, hafa skömm á skrifum hans í viðtali við Tímann. Vilmundur sagði krata liggja veinandi í formanni sínum en Kjartan neitaði því alfarið. Engu að síður var ljóst að einhverjir höfðu kvartað til forystumanna flokksins undan skrifum starfandi ritsjóra málgagnsins, enda var langt í frá farið mjúkum höndum um forystu verkalýðsfélaganna.

„Fíflablaðið“

Á þessum sama tíma var ákveðið að minnka blaðið úr átta síðum í fjórar eins og áður hafði verið. Áleit Vilmundur það vera gert í beinu framhaldi af óánægju verkalýðsforystunnar og brást ókvæða við. Sagði hann þetta hreina og klára ritskoðun og varðist hatrammlega. Engu að síður varð þessi ákvörðun ofan á og blaðið minnkað. Fæddist þá sú hugmynd á ritstjórn blaðsins að mótmæla þessu framtaki með því að fylla blaðið af fréttatilkynningum án athugasemda. Önnur hugmynd, og sú sem var að lokum framkvæmd, var að gefa út nokkurs konar grínblað. Blaðið var uppfullt af skáldskap, birt voru viðtöl við fólk sem ekki höfðu verið tekin og fréttir sagðar af fundum sem ekki voru haldnir. Að lokum lýsti Vilmundur því yfir að í samræmi við pólitískt ástand í Alþýðuflokknum ætti þetta blað að taka afstöðu með góðu veðri í landinu og með sjálfsögðum hlutum en á móti því neikvæða.

Blaðstjórninni var ekki skemmt og var sú ákvörðun tekin að stöðva dreifingu blaðsins. Var farið upp á ritstjórn og öllu upplagi blaðsins mokað í svarta plastpoka og kveikt í herlegheitunum. Aðeins einu eintaki var haldið eftir.

Ritstjórn blaðsins, sem í voru auk Vilmundar þeir Helgi Már Arthúrsson og Garðar Sverrisson, tók ákvörðun um að hefja setuverkfall uns bannaða blaðið yrði gefið út. Kjartan Jóhannsson mætti þá á ritstjórnina í þeim tilgangi að miðla málum. Fékk hann þess í stað að heyra það frá Vilmundi að hann hefði ekki hundsvit á pólitík en svolítið á tölum og ætti því að fá sér vinnu hjá Þjóðhagsstofnun frekar en að vera að vasast þetta í pólitík. Var því ljóst að Kjartan hafði ekki erindi sem erfiði í þessari heimsókn sinni á ritstjórn Alþýðublaðsins.

Daginn eftir var haldinn þingflokksfundur og vildi Vilmundur þar fá samþykkta traustsyfirlýsingu á starfsmenn blaðsins og samþykki fyrir útgáfu „fíflablaðsins“ eins og það var kallað. Tillaga Vilmundar fékkst ekki rædd á þingflokksfundinum sem stýrt var af Sighvati Björgvinssyni en daginn eftir náði Vilmundur því fram að bannaða blaðinu yrði dreift með öðru tölublaði Alþýðublaðsins gegn ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin voru þau að blaðamennirnir máttu ekki skrifa um Alþýðublaðsdeiluna og inn á ritstjórnina kom blaðstjórnarmaðurinn Björn Friðfinnsson til að fylgjast með störfum blaðamannanna.

Skömmu síðar komst Vilmundur að því að Kjartan hafði boðið Helga Má ritstjórastólinn fram að þeim tíma er Jón Baldvin kæmi heim. Þetta gramdist Vilmundi illa og setti deiluna af stað á nýjan leik með því að krefjast traustsyfirlýsingar frá forystu flokksins. Það var ekki aðeins þetta tilboð Kjartans sem hratt atburðarrásinni af stað heldur ekki síður þær sögusagnir sem bárust Vilmundi til eyrna.

Heilsa Vilmundar tíðrædd

Þessa dagana heyrði Vilmundur, hvort tveggja frá Ríkisútvarpinu og einu dagblaðanna, að hann væri sagður andlega vanheill af forystumönnum Alþýðuflokksins. Eiður Guðnason þingmaður mun hafa hringt í eitt dagblaðanna og beðið menn þar um að skrifa sem minnst um Alþýðublaðsdeiluna. Kjartan Jóhannsson sagði fréttamanni Útvarpsins frá því sem trúnaðarmáli að deilan væri „mannlegur harmleikur“ og átti þar við, svo ekki var um villst, að Vilmundur væri sjúkur maður. Þótti mönnum þetta svo greinilegur og stórkostlegur rógur að Vilmundi var sagt frá þessum sögusögnum í báðum tilvikum.

Næstu daga frétti Vilmundur af frekari umræðum um andlega heilsu sína og mátti allt rekja til þingflokks Alþýðuflokksins þar sem umræður virtust hafa farið fram um málið á fundi eða þar sem margir komu saman. Frétti Vilmundur kyrfilega af þessu öllu saman, svo vel að hann gat farið orðrétt með ummæli einstakra manna. Í framhaldinu ritaði Jónas Kristjánsson ritstjóri forystugrein í Dagblaðið um þetta mál. Ritaði hann meðal annars þetta:

Jafnframt rægðu þeir Vilmund óspart og á þann hátt sem hér á landi er oft gert í skúmaskotum en annars aldrei á prenti. Þeir hvísluðu um drykkjuskap og geðveiki. Formaður flokksins gekk ekki svona langt á opinberum vettvangi, heldur talaði hann við fréttamenn um mannlegan harmleik en ekki þarf mikið ímyndunarafl til þess að sjá hvaða dylgjum formaðurinn er að reyna að koma á framfæri.“

Verkfall hófst að nýju á ritstjórn Alþýðublaðsins. Kjartan kallaði Vilmund á fund sinn og lyktaði þeim fundi með því að Vilmundur réðst mjög hart að Kjartani, bar hann þungum sökum og beitti nöturlegri hæðni. Varð Kjartan augsýnilega miður sín og herti Vilmundur þá leikinn ef eitthvað var.

Jón kemur aftur á ritstjórnina

Ekki varð af fleiri fundum milli Vilmundar og Kjartans þá vikuna. Jón Baldvin kom aftur til starfa og tók strax afstöðu með Vilmundi gegn ritskoðun. Voru það mikil vonbrigði fyrir flokksforystuna sem taldi víst að Jón myndi stilla til friðar. Engu að síður tókust samningar eftir langa fundarsetu og komst ritstjórn að samkomulagi um að Vilmundur stýrði blaðinu áfram en Jón bæri ábyrgð frá flokksskrifstofunni. Samt sem áður gerðist það strax daginn eftir að samkomulagið var í höfn að Jón virtist hafa skipt um skoðun. Hann kallaði blaðamenn á fund sinn þá Garðar og Helga auk Vilmundar og sagðist ætla að setjast í sinn stól á skrifstofu blaðsins. Þótti þeim sem Jón væri þarna að svíkja það samkomulag sem áður hafði verið handsalað. Við það gengu þeir þremenningar út af ritstjórn blaðsins og lýsti Garðar því svo að þeir hefðu frekar kosið æruna en launin og því gengið út af ritstjórn Alþýðublaðsins. Nýtt blað var í burðarliðnum, blaðið Nýtt land, og skipuðu þeir Vilmundur, Garðar og Helgi ritstjórnina.

Einangrun Vilmundar í Alþýðuflokknum

Eftir þessi átök var ekki laust við að Vilmundur væri nokkuð einangraður í Alþýðuflokknum. Hann fór sér hægt í flokksstarfinu og var það af ýmsum skýrt með veikindum hans. Hann hugleiddi alvarlega að hætta afskiptum af stjórnmálum á þessum vetri sem eftir kom. Varð þetta til þess að einn af forystumönnum Alþýðuflokksins sá ástæðu til þess að ræða geðheilsu Vilmundar við forsætisráðherra landsins í desember 1981 og sagði að ráðherrann og ríkisstjórnin skyldu ekki gera mikið með gagnrýni Vilmundar eða málflutning yfirleitt, því hann væri sjúkur maður. Með þessu reyndi hann að aðgreina orð Vilmundar og annarra Alþýðuflokksmanna.

Vilmundur hellti sér út í prófkjörsbaráttu fyrir Bjarna P. Magnússon í Reykjavík. Borgarstjórnarkosningar voru í nánd og þær nýtti Vilmundur sér til að ná fyrri tengslum við flokkinn. Fór hann í kjölfar þess að hugleiða vel stöðu sína í flokknum og ákveða framhaldið.

Big bouquet of roses

Það var komið fram í nóvember árið 1982. Senn leið að flokksþingi Alþýðuflokksins og prófkjöri í Reykjavík. Tveimur árum áður hafði Vilmundur tapað fyrir Magnúsi H. Magnússyni í kjöri um varaformann flokksins. Viðbrögð hans við því má sjá hér á öðrum stað í greininni. En Vilmundur var ekki af baki dottinn þrátt fyrir mótbyr í flokknum og ákvað að gefa aftur kost á sér í sama embætti, nú gegn sitjandi varaformanni, en það hafði ekki gerst áður. Fáir bjuggust við því að Vilmundur næði langt í þessu kjöri, ekki síst vegna þess sem á undan hafði gengið, en ljóst var að Vilmundur leit á þetta sem lokatilraun sína í Alþýðuflokknum.

Vilmundur vann ötullega fyrir þetta flokksþing og af nokkurri rósemi öfugt við það sem hafði verið tveimur árum áður. Fékk Vilmundur stuðning frá nokkrum sem áður höfðu verið andsnúnir honum og má þar nefna Sighvat Björgvinsson sem tveimur árum áður hafði unnið gegn honum. Nokkurrar reiði gætti í garð Vilmundar vegna hótunar hans um að hætta í flokknum næði hann ekki kjöri. Sjálfur reyndi Vilmundur að lempa þennan orðróm en aftók þó ekki með öllu að eitthvað væri til í þessari sögu.

Úrslitin komu á óvart. Magnús náði endurkjöri en eingöngu með 12 atkvæða mun. Eftir tapið hélt Vilmundur ræðu sem hófst svona:

„I bring you a big bouquet of roses, one for every time you broke my heart.“

Vilmundur gekk að lokinni ræðu út af flokksþinginu, fram til Valgerðar sem beið hans, og sögðu margir Vilmund þar með farinn úr Alþýðuflokknum.

Sérframboð – Samframboð?

Vilmundur hafði ekki langan umhugsunartíma um veru sína í flokknum því viku eftir flokksþing rann út framboðsfrestur til prófkjörs Alþýðuflokksins í Reykjavík. Þegar ljóst var að hann ætlaði ekki að taka þátt í því var hann spurður af fréttamanni Ríkisútvarpsins hvort hann hyggði á sérframboð. Vilmundur svaraði á þessa leið:

Vilmundur: Sjáðu nú til, sérframboð, það er Morgunblaðsorð. Þýðir það þá að gömlu flokkarnir séu í samframboði? Eða er þetta skírskotun í orð eins og sérvitringur. Sé um slíkt að ræða, og ég geri ráð fyrir að það sé rakið til einhverra einstaklinga, ekki til mín, þá er það auðvitað skoðað mjög vel og vendilega. Þessar hugmyndir hafa komið upp en um það hefur engin ákvörðun verið tekin. Við þurfum að vita miklu meira, undirbúa mjög vandlega. Þú spyrð í fullum rétti því að þetta hefur verið nefnt en mitt svar er líka í fullum rétti, förum okkur hægt, vel skal vanda það sem lengi á að standa.

Margir höfðu reiknað með því að baráttan um fyrsta sætið á lista Alþýðuflokksins í Reykjavík yrði á milli Vilmundar og Jóns Baldvins og yrði þá nokkurt uppgjör í flokknum. Jón hafði beitt sér af miklu afli gegn Vilmundi á flokksþinginu skömmu áður og lítill vinskapur var á milli þeirra. Vilmundi voru enn minnisstæð svikin í Alþýðublaðsdeilunni en hann hafði talið bandamann í Jóni gegn ráðum margra manna sem vöruðu Vilmund eindregið við félagsskapnum. Þeir sem vöruðu Vilmund við voru meðal annarra samflokksmenn Jóns úr þeim þremur flokkum sem Jón hafði starfað í. Helgarpósturinn dró upp mynd af Vilmundi í ágústmánuði 1981, um það leyti sem Alþýðublaðsdeilan var að líða undir lok. Þá sagði Jón Baldvin um Vilmund:

Sem þingmaður er Vilmundur gersamlega mislukkaður og þegar á reynir nýtur hann ekki trausts samstarfsmanna sinna. Vilmundur er ekki pólitískur leiðtogi. Hann leggur ekki fram neinar línur og leysir ekki vandamál. Hann er heldur vanstilltur, skapríkur og metnaðargjarn pólitískur áróðursmaður.

Bandalag jafnaðarmanna

Þær voru ekki alrangar getgáturnar um útgöngu Vilmundar úr flokknum eftir varaformannsslaginn né heldur um að nýr stjórnmálaflokkur væri í burðarliðnum. Vilmundur tilkynnti úrsögn sína úr flokknum á þingi þann 18. nóvember og boðaði um leið komu Bandalags jafnaðarmanna. Greindi hann þingheimi í leiðinni frá þingsályktunartillögu, sem hann hafði þá lagt fram, um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds og beina kosningu forsætisráðherra. Þetta var eitt af baráttumálum Vilmundar og jafnframt eitt af stefnumálum Bandalagsins. Vilmundur sagði þetta bandalag vera sett til höfuðs gömlu flokkunum, þvert á alla flokka, og því ekki klofning úr einu né neinu. Hann sagði lýðræðinu stafa hætta af óeðlilegu flokkavaldi. Því yrði þetta snar þáttur í heimspeki Bandalags jafnaðarmanna, bandalagi gegn flokkunum. Hann sagði einnig í ræðu sinni flokkavaldið hafi gert þjóðinni og landinu of mikið illt til að hægt væri að sitja hjá.

Þegar Vilmundur var inntur eftir því hver stæði á bak við Bandalag jafnaðarmanna svaraði hann því til að þetta væri allstór hópur en þó ekki mjög stór. Hann talaði fjálglega um þann hóp sem stæði að þessu, notaði orð eins og við í Bandalaginu eða þeir sem að okkur standa. Raunin var hins vegar sú að hann stóð gersamlega einn í upphafi. Það var enginn hópur, ekki einu sinni vinir eða kunningjar. Valgerður, kona hans, stóð þó með honum. Vala hafði hvatt hann til útgöngu úr Alþýðuflokknum og deildi hugmyndum hans um stofnun nýrrar hreyfingar en fjöldahreyfing var það ekki.

Í umræðum á þingi um vantraust á ríkisstjórnina í nóvemberlok 1982 tjáði Vilmundur sig meðal annars um fjórflokkana og Bandalagið.

Við myndum ekki flokk, aldrei framar flokk, aldrei framar flokk, heldur laustengt bandalag laustengdra samtaka karla og kvenna, þar sem það ræður miðað við höfðatölu.

Og síðar í ræðunni segir Vilmundur:

Þeir munu ráðast að okkur með upphrópunum, með því að loka fjölmiðlunum. Þeir munu reyna að hæða okkur, reyna að láta allt líta út sem upphlaup eða gífuryrði. Ég nefni dæmi. Hæstvirtur ráðherra, Svavar Gestsson, segir á fundi flokks síns að fram séu að koma mörg aukaframboð. Ég endurtek, aukaframboð. Hugsið ykkur mannfyrirlitninguna, þá fyrirlitningu á skoðunum annarra sem felst í þessu litla orði. Auðvitað vill Svavar Gestsson að aðeins hann sjálfur og Geir Hallgrímsson séu í aðalframboðum svo að þeir geti metist á um það hvor hafi skrökvað meira og þrasað svolítið um NATO. Þetta er þeirra kerfi og þeirra vald. Við hin erum aukapersónur – kannski auka-Íslendingar.
Vilmundur vildi gjörbylta öllu stjórnmálastarfi á Íslandi. Hann taldi Sjálfstæðisflokkinn vera samtök hægri manna, íhaldsmanna, frjálshyggjumanna og hagsmunagæslumanna úr öllum örmum atvinnulífsins. Til mótvægis við þau vildi hann samtök frá miðju og alllangt til vinstri. Stefnuskráin var heldur hófstillt enda var ætlunin að ná til sem flestra. Hann vildi ná til sín ´68-kynslóðinni, umhverfisverndarsinnum og kvennabaráttuliðum, menningarvitum og fjölmörgum öðrum sem voru til hægri við þá sem hvað róttækastir voru í Alþýðubandalaginu. Alþýðubandalagið vildi hann skilja eftir sem flokk ríkiskapítalista, stalínista og kerfiskomma sem höfðaði til 5% þjóðarinnar eins og hann sagði eitt sinn.

Það vorar brátt

Í lokaræðu sinni á þingi sagði Vilmundur um fjórflokkana og þá stöðnun sem hann sagði samfara þeim:

Bandalag jafnaðarmanna, hugmyndir okkar um breytt stjórnkerfi og dreift vald, ábyrgð og frelsi hinnar litlu einingar, er kall nýrrar tíðar gegn þessari þróun. Við erum bjartsýn vegna þess að það er hægt. Við erum bjartsýn vegna þess að við trúum því að þessar skoðanir eigi samhljóm um landið vítt og breitt, að tímabili stöðnunar og þessarar upplausnar ljúki og við taki ný hreyfanlegri og betri tíð. Það vorar brátt í þessu landi og við viljum að það vori víðar.

Framboð og eftirspurn

Vilmundi gekk illa að ná saman framboðslistum um allt land. Margir voru sammála honum en færri vildu sitja á listum Bandalags jafnaðarmanna. Fór þó svo á endanum að Vilmundur náði saman 120 frambjóðendum og 120 stuðningsmönnum um allt land. En Vilmundur var ekki sáttur. Honum þótti framboðið kraftlítið í heildina. Skoðanakannanir spáðu Bandalaginu þó verulegum árangri í upphafi kosningabaráttunnar. En Vilmundur var viss um að illa myndi ganga, sérstaklega síðustu tíu daga baráttunnar. Hann sagði fimm þingmenn eða færri ósigur. Á kjördag var Vilmundur þeirrar skoðunar að Bandalagið næði fjórum þingmönnum. Sú varð raunin að Bandalag jafnaðarmanna fékk rúmlega 7% atkvæða og fjóra menn kjörna. Vilmundur tók nokkurn þátt í viðræðum um stjórnarmyndun eftir kosningar en svo fór að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu ríkisstjórn.

Niðurstöðurnar urðu honum gríðarleg vonbrigði. Vilmundur íhugaði alvarlega að hætta afskiptum af stjórnmálum eftir kosningar. Honum fannst hann og hans hugsjónir hafa beðið mikla hnekki og hvarflaði jafnvel að honum að fjórmenningarnir í þingflokki Bandalagsins gengju inn í Alþýðuflokkinn. Fullvíst var að aðrir í Bandalaginu voru andvígir þessari hugmynd og reyndi því ekkert á þetta.

Eftir kosningar og stjórnarmyndun, að lokinni átta mánaða þrotlausri vinnu, lagðist þunglyndi á Vilmund eins og svo oft áður. Í þetta sinn þyngra en áður og með meiri drunga en áður. Hann sagði á stjórnmálafundi einum þetta vor:

Annars megum við aldrei gleyma því, að allt þetta skiptir litlu máli hjá öðru. Svo lengi sem stjórnmálin ræna ekki fólki öllum möguleikum til þess að það geti lifað lífi sínu sjálft, skipta þau litlu máli. Það sem máli skiptir er að börn halda áfram að fæðast, fólk að verða ástfangið, lífið að snúast sinn gang. Týnum því ekki í þessu þrasi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: