Fréttir

„Hann er varaþingmaður Vinstri grænna“

By Miðjan

September 27, 2017

Upprifjun Það var vorið 2014, þegar útlit var fyrir að erlendir ferðamenn hér á landi yrðu fleiri en ein milljón það árið, að ég fékk Edward Huijbnes, þá forstöðumann rannsóknamiðstöðvar ferðamála, í viðtal. Edward sagði þar að milljón ferðamenn gætu haft jákvæð og varanleg áhrif á Íslandi. Hann sagði að til að ávinningur samfélagsins yrði sem mestur yrði að skattleggja ferðaþjónustu meir en gert var. Hann sagði að best væri á að byrja á að afnema allar undanþágur, svo sem af gistingu.

Hann sagði okkur ekki skattleggja ferðaþjónusta eins mikið og gert væri í öðrum löndum og þess vegna ættum við marga möguleika ónýtta.

Ég rifja þetta upp nú, um þremur og hálfi ári síðar, vegna þess að sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna, sagði á ráðstefnu í Hörpu fyrr í vikunni nánast það sama og Edward sagði vorið 2014.

Mér fannst mikið til þess koma sem Edward sagði. Bar orð hans undir ráðafólk þess tíma. Enginn áhugi virtist á því sem sérfræðingurinn sagði. Þegar ég gekk eftir svörum var viðurkennt að margt væri til í því sem Edward sagði, en stóra málið var annað. „Hann er varaþingmaður Vinstri grænna,“ var ákveðnasta svarið. Þess vegna, já einmitt þess vegna, var ekkert gerandi með tillögur Edwards Huijbnes.

-sme