Ole Anton Bieltvedt, stofnandi og formaður Jarðarvina, skrifar eftirtektarverða grein í Fréttablaðið í dag. Hún fjallar um grenjaveiðar. Hér er síðasti kafli greinarinnar. Hann er ógeðfelldur.
Grenjaveiðarnar eru versti hluti málsins. Yrðlingar fæðast um mánaðamótin apríl/maí, og hefjast grenjaveiðar í byrjun júní. Læða og steggur lifa saman ævilangt, ef bæði lifa, og er steggur í því á daginn að færa björg í bú, meðan læða gætir og fæðir hvolpana.
Veiðimenn leggjast við greni, bíða komu steggs og skjóta. Þegar matarbirgðir þrjóta í greni, neyðist læða til að yfirgefa yrðlinga í fæðuleit. Þá er hún skotin. Eftir eru þá litlir yrðlingar, 4-5 vikna gamlir, eins og litlir hundshvolpar, og þegar hungrið sverfur að, freista þeir þess, að fara úr greni.
Þá eru þeir handsamaðir og barðir til dauða með steini eða skotnir. Sumir yrðlingar þráast við í greni, þrátt fyrir kvöl hungurs og einsemdar, og læða þá veiðimenn fótaboga inn í greni, sem er festur á snæri, og þegar boginn smellur, limlestir, jafnvel brýtur lítinn fót, kippir veiðimaður í og lemur svo þessa litlu og hrjáðu veru til bana eða skýtur.
Lesandi góður, búum við í menningarþjóðfélaginu Íslandi og hrukkum við, í þessu máli, með einhverjum hætti aftur til miðalda, eða, er menningarþjóðfélagið alls ekki til staðar: bara tálsýn!? Ef þetta væri nú eina málið.
Á öðrum stað í greininni fjallar hann um uhverfisráðherrann, Guðlaug Þór Þórðarson:
En, ofsóknirnar gegn pólarrefnum halda áfram eins og stjórnlaus drápsmaskína í nafni Umhverfisstofnunar og umhverfisráðherra. Ráðherra sjálfur er veiðimaður, og virðist ekkert með þetta gera.
Svo er þessi kafli ekki minna merkilegur:
Á árunum 2000-2019 voru 113.563 refir drepnir, þar af 38.420 litlir tófuhvolpar, yrðlingar. Flestir barðir til dauða með steini eða skotnir í tætlur með haglabyssu.
Á árunum 2011-2020 greiddu sveitarfélög 983 milljónir til veiðimanna fyrir drápið á refum. Auðvitað eru það veiðimennirnir, drápspremían til þeirra, sem halda þessari stjórnlausu drápsmaskínu gangandi.